Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra hefur birt áform um endurskoðun laga um tekjustofna sveitarfélaga sem felur í sér að afnám á undanþágu rafveitna (vatnsafls- og jarðvarmavirkjanna og vindmylla) frá fasteignamati.
Áætlað er að breytingin hafi í för með sér að fasteignamat rafveitna myndi hækka úr 82 milljörðum króna í 1.358 milljarða króna, eða sem samsvarar 16,6-földun. Hækkunin mun fela í sér hækkun á fasteignaskatti rafveitna.
„Hækkun skatta á orkuframleiðslu kann að hafa í för með sér hærri orkukostnað almennings og fyrirtækja,“ segir í mati ráðuneytisins á áhrifum frumvarpsins þar sem breytingunni er lýst sem nýrri tekjuöflun fyrir sveitarfélög.
Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins segir að markmið breytinganna sé að tryggja sanngjarnari hlutdeild nærsamfélaga í ávinningi af raforkuframleiðslu og auka sjálfbærni sveitarfélaga.
Ráðuneytið segir að frumvarpið muni byggja á tillögum starfshóps um skattlagningu orkuvinnslu sem skipaður var af þáverandi fjármálaráðherra. Starfshópurinn, sem skilaði af sér skýrslu í febrúar 2024, lagði m.a. til að felld verði niður undanþága rafveitna frá fasteignamati, en undanþágan hefur leitt til þess að stærstur hluti mannvirkja til orkuframleiðslu er undanþeginn fasteignaskatti.
Tekjur sveitarfélaga frá orkufyrirtækjum meira en tvöfaldast
Frumvarpið felur í sér auknar tekjur sveitarfélaga af fasteignaskatti mun renna beint til sveitarfélaga og að einhverju leyti í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.
Á árunum 2018 til 2021 greiddu orkufyrirtæki að jafnaði um 7,5 milljarða króna í fasteignaskatt og tekjuskatt. Ríkissjóður fékk tæp 80% og sveitarfélög um 20% eða 1,5 milljarða króna árlega.
„Í þeim sviðsmyndum sem unnar hafa verið er gert ráð fyrir að skatttekjur sveitarfélaga yrðu 3 milljarðar króna eða 5 milljarðar króna, eða 2-3,5 sinnum meira en meðaltal áranna 2018-2021.“
Þriðji aðili sjái um innheimtu fasteignaskattanna
Áformin fela í sér að ákveðinn verður nýr gjaldflokkur fasteignaskatts rafveitna og settar verða sérstakar reglur um hvernig tekjur af fasteignaskatti dreifast til sveitarfélaga þegar rafveita og áhrifasvæði hennar er staðsett í fleiri en einu sveitarfélagi.
Lagðar verða til reglur sem mæla fyrir um hámarks tekjur af rafveitum á hvern íbúa sveitarfélags. Lagt verður til að sett verði regla um ákveðið hámark fasteignaskattstekna vegna rafveitna á hvern íbúa sveitarfélags.
Ráðuneytið segir að til að koma í veg fyrir að fámenn sveitarfélög, sem hafa náð hámarkinu missi ekki hvata til að samþykkja virkjunarframkvæmdir, sé lagt til að sveitarfélög fái ákveðnar jaðartekjur af rafveitum sem eru umfram hámarkið á hvern íbúa.
Þá verður lagt til að þriðji aðili muni taka að sér innheimtu fasteignaskatts rafveitna í stað sveitarfélaganna sjálfra og dreifi skattinum til sveitarfélaga og til Jöfnunarsjóðs eftir atvikum.
Gera ráð fyrir breytingum á reglum um Jöfnunarsjóð
Ráðuneytið segir að að því leyti sem auknar tekjur „orku“ sveitarfélaga leiða til lækkunar á framlögum frá Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, aukast greiðslur til annarra sveitarfélaga.
„Í ljósi þess að tekjuhá sveitarfélög á hvern íbúa, sem ekki fá neinar greiðslur úr Jöfnunarsjóði, myndu að óbreyttum reglum halda öllum nýjum tekjum sínum vegna aukinna skatttekna af orkuvinnslu, er gert ráð fyrir breytingum á regluverki Jöfnunarsjóðs.
Í slíkum takmarkatilvikum er gert ráð fyrir að sveitarfélög sem þannig er statt fyrir greiði til Jöfnunarsjóðs ákveðið hlutfall af nýjum tekjum sínum og aukast framlög Jöfnunarsjóðs einnig með þeim hætti til annarra sveitarfélaga.“