Heildarmat fasteigna á Íslandi hækkar um 12,8% frá yfirstandandi ári og verður 8.364 milljarðar króna, samkvæmt nýju fasteignamati fyrir árið 2019 sem Þjóðskrá Íslands birti í dag.

Fasteignamatið hækkar á 99,2% eigna en lækkar á 0,8% eigna frá fyrra ári. Heildarfjöldi íbúða eru 133.071 á öllu landinu og er heildarmat þeirra 5.727 milljarðar króna.

Öfug þróun í borginni og landsbyggðinni

Á höfuðborgarsvæðinu hækkar matsverð íbúða í sérbýli meira en íbúðir í fjölbýli en á landsbyggðinni er þessu öfugt farið.
Nam heildarhækkunin 11,6% á höfuðborgarsvæðinu, en meðalhækkun á mati íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu er 10,3% og hækka flest svæði innan þess um 8-12%.

Mun meiri hækkun má sjá í nágrannasveitarfélögum, þannig hækkar matssvæðið á Ásbrú um 98%, Sandgerði um 39%, Garður um 37%, Reykjanes dreifbýli um 35%, Hafnir um 35%, Keflavík og Njarðvík um 34%, Vogar um 33%, Hveragerði um 24% og Akranes og Selfoss um 22%.

Mest hækkun á Reykjanesi

Fasteignamat hækkar mest á Reykjanesi en þar hækkar íbúðamatið um 41,1% í Reykjanesbæ, um 37,9% í sameinuðu sveitarfélagi Sandgerðis og Garðs og um 32,9% í Vogum.

Heildarhækkunin á Suðurnesjum hækkaði um 28,3%, um 14,3% á Vesturlandi, 12,1% á Vestfjörðum, 11% á Norðurlandi vestra, 15% á Norðurlandi eystra, 9,5% á Austurlandi og um 13,7% á Suðurlandi.

Atvinnuhúsnæði hækkar mikið í borginni

Fasteignamat atvinnuhúsnæðis hækkar um 15% á landinu öllu; um 17,2% á höfuðborgarsvæðinu en um 9,9% á landsbyggðinni.
Fasteignamat sumarhúsa fyrir árið 2019 hækkar um 9,8% og byggir það mat á sömu aðferðarfræði og fasteignamatið fyrir árið 2018 gerði, en ýmsum nýjum upplýsingum hefur verið bætt inn í það mat.

Fasteignamatið byggir á upplýsingum úr þinglýstum kaupsamningum auk fjölmargra annarra þátta sem hafa áhrif á verðmæti fasteigna. Nýja fasteignamatið miðast við verðlag fasteigna í febrúar 2018. Það tekur gildi 31. desember 2018 og gildir fyrir árið 2019.