Lífeyrissjóðurinn Festa seldi allan hlut sinn í HB Granda á yfirtökugenginu 34,3 krónur per hlut en sjóðurinn átti 1,28% í félaginu. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu . Ástæðan fyrir sölunni var sú að lífeyrissjóðurinn hafði áhyggjur af þrengra eignarhaldi HB Granda.

Festa lífeyrissjóður varð til þegar Lífeyrissjóður Suðurlands og Lífeyrissjóður Vesturlands sameinuðust og er hann tíundi stærsti lífeyrissjóður landsins.

Viðskiptablaðið fjallaði um að minnihluti stjórnar í HB Granda vildi ekki reka fráfarandi forstjóra félagsins, Vilhjálm Vilhjálmsson, og ráða Guðmund Kristjánsson í hans stað. Þá sendi Rannveig Rist, sem hefur starfað sem varaformaður stjórnar, frá sér tilkynningu í gær þess efnis að hún muni segja sig úr stjórn félagsins. Líkur eru á að fleiri breytingar verði gerðar á stjórnendateymi HB Granda.

Á morgun rennur út frestur til að taka yfirtökutilboðinu sem er á 34,3 krónur á hlut. Fram kemur í Morgunblaðinu að þátttaka meðal almennra hluthafa sé lítil.