Nokkrir stærstu auðlinda- og vogunarsjóðir heims taka þátt í fimm milljarða króna fjárfestingu í leyfum AEX Gold á Suður-Grænlandi til að leita að og vinna efnahagslega mikilvæga málma, svo sem kopar, nikkel og annarra svokallaðra tæknimálma. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

AEX Gold, sem heita mun Amaroq Minerals eftir aðalfund félagsins 16. júní næstkomandi, hefur gert samkomulag við ACAM Investments um fjármögnun á rannsóknum og vinnslu á efnahagslega mikilvægum málmum á Suður-Grænlandi á næstu 3-5 árum. Helstu bakhjarlar ACAM eru Louis Bacon, forstjóri alþjóðlega sjóðastýringarfyrirtækisins Moore Capital, og Tim Leslie, forstjóri fjárfestingasjóðsins S&F Investment Advisors Limited. Gert er ráð fyrir að aðrir stórir fjárfestar komi að verkefninu á síðari stigum.

Framlag AEX og ACAM er í heildina metið á um 28,4 milljónir punda. Mun ACAM leggja fram 28,4 milljónir punda í reiðufé og eignast með því 49% í nýju félagi, en AEX mun eiga 51% hlut. Þetta nýja félag mun eiga rannsóknar- og vinnslurétt á öðrum málmum en gulli í þeim leyfum sem AEX hefur þegar aflað sér.

Framlag AEX verður annars vegar í formi þróunar- og vinnsluleyfa sem fyrirtækið hefur yfir að búa á svæðinu og hins vegar í formi aðstöðu á svæðinu, flutninga og kostnaðar við nýtingu á innviðum upp á um fimm milljónir punda. Hægt verður að auka fjármögnun nýja félagsins sem nemur 10 milljónum punda þegar umsömdum áföngum hefur verið náð.

Tekið er þó fram að ekki sé verið að auka hlutafé AEX og ACAM verður ekki hluthafi í AEX. Hins vegar muni þetta fyrirkomulag auka virði AEX um 3-5 milljarða króna þar sem þessi leyfi eru ekki metin til fjár í efnahagsreikningi AEX í dag. „AEX telur að þarna séu námusvæði sem verða milljarða virði eftir að búið er að rannsaka þau.“

Skoða aðkomu íslenskra fjárfesta

Þróunar og vinnsluleyfin eru í heildina sjö talsins. Aðaláherslan verður á Sava-svæðið sem AEX telur að hafi möguleika á að vera koparvinnslusvæði á heimsmælikvarða. Á Stendalen svæðinu sé að finna títan, vanadíum, nikkel, kóbalt og PGM (palladíum og platínu). Að lokum er það Paattisoq svæðið þar sem finna má svokallaða „rare earth” málma sem séu mikilvægir fyrir tækni og rafvæðingu. Öll þessi svæði liggja á belti sem nær frá Kanada til Skandinavíu í gegnum Grænland. Í kanadíska og skandínavíska hluta beltisins er að finna má stórar námur sem vinna alla þessa málma.

Sjá einnig: Grænland mikilvægt fyrir orkuskiptin

Í tilkynningunni segi að Amaroq leggi áherslu á að byggja upp þjónustumiðstöð á Grænlandi með tækjum, bátum og vinnubúðum. Félagið horfi til þess að vinna þá málma sem vestræn lýðræðisríki þurfa á að halda fyrir orkuskipti með ábyrgum hætti, sem felst m.a. í því að námavinnslan verði knúin endurnýjanlegri orku og hægt verði að endurvinna málmanna þegar námurnar eru upp urnar.

„Ísland mun leika lykilhlutverk í þessari þróun og er AEX að skoða hvernig skandinavískum og íslenskum fjárfestum verður gefið færi að taka þátt í verkefnunum á Grænlandi, sérstaklega þar sem stór partur af þjónustunni mun koma frá Íslandi. Eins er mikilvægt er fyrir Íslendinga að tryggja sér aðgang að auðlindum sem þessum.“

Eldur Ólafsson, forstjóri AEX Gold:

„Við erum afar ánægð samstarf okkar við ACAM á leyfissvæðum okkar. Þessi samvinna gerir okkur kleift að hraða rannsóknum og vinnslu og koma þessum mikilvægu málmum fyrr inn í hagkerfi heimsins. Samkomulagið gerir okkur einnig kleift að kanna stærra svæði til að finna meira af slíkum málmtegundum. Sú fjárfesting sem AEX hefur þegar farið í til að byggja upp stjórnendateymi, vinnubúðum, innviðum, flutningsstuðningi og staðbundnum samböndum gefur okkur getu til að ganga inn í þetta spennandi og metnaðarfullu verkefni.

„Hinn vestræna heim skortir mjög efnahagslega mikilvæga málma eins og kopar, sink, nikkel, grafít og svokallaða “rare earth” málma til að knýja orkuskiptin. Sviptingar í alþjóðamálum hafa sett afhendingaröryggi á þessum málmum í mjög skarpan fókus og Suður-Grænland er eitt af fáum svæðum innan OECD sem enn er mögulegt að vinna þessa mikilvægu málma. Rannsóknarvinna okkar hingað til hefur styrkt okkur í þeirri trú að á Suður-Grænlandi sé að finna umtalsvert magn þessara málma.”