Þegar talað er um Kauphöllina í daglegu tali hugsa flestir til skráðra hlutabréfa þeirra fyrirtækja sem prýða hinn svokallaða aðalmarkað. Af 29 félögum með skráð hlutabréf í Kauphöllinni eru 23, eða fjögur af hverjum fimm, skráð á aðalmarkað, og hefur samanlagt markaðsvirði First North-félaganna lengst af verið hverfandi í samanburði við aðalmarkað.

Meirihluti félaga á aðalmarkaði eru hvert um sig meira virði en First North í heild sinni í dag og frá áramótum hafa bréf á aðalmarkaði skipt um hendur fyrir 521 milljarð króna samanborið við aðeins 10,5 á First North sem gerir rétt um 2% hlutdeild.

Í fjölda viðskipta er hliðarmarkaðurinn þó ögn líflegri í samanburði við stóra bróður. Af hátt í 70 þúsund einstökum hlutabréfaviðskiptum það sem af er ári hafa 3.680 þeirra eða 5,3% átt sér stað á First North.

Jafnvel ofangreind hlutdeild í Kauphallarviðskiptum með hlutabréf má þó heita veisla í samanburði við þá Þornurt (e. Tumbleweed) sem segja má að viðskiptum á First North hafi best mátt líkja við frá hruni og út síðasta áratug. Frá ársbyrjun 2009 út árið 2019 nam veltan þar aðeins 1,36 milljarði króna í ríflega 1.500 viðskiptum, eða um 0,04% veltunnar í 0,7% viðskiptanna.

Smæðin í dag aðeins skammlíf lægð

Ólíkt þeirri gleymsku sem hliðarmarkaðurinn féll í eftir hrun er lægðin í dag þó aðeins tímabundin. Hann var orðinn mun stærri þar til fyrir aðeins nokkrum mánuðum, og ekki er útlit fyrir að þess verði lengi að bíða að virði hans rjúki upp að nýju.

Í lok maí síðastliðins, skömmu fyrir brottför Hampiðjunnar, sem færði sig yfir á aðalmarkað í byrjun júní, var það um tvöfalt á við það sem það er í dag, og sé horft aftur um ár þegar Alvotech – í dag verðmætasta einstaka félag Kauphallarinnar – var enn á First North var heildarvirðið þar rétt um 400 milljarðar í septemberbyrjun, eða ríflega 15% virðis alls hlutafjár í Kauphöllinni.

Með skráningu Arnarlax á First North nú í haust stefnir allt í að First North taki hressilegt stökk á ný og verði vel á annað hundrað milljarða.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út á miðvikudag.