Útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækið Fiskkaup á Fiskislóð í Reykjavík hagnaðist um 308 milljónir króna á síðasta ári samanborið við 94 milljóna tap árið 2020 en breytingin á milli ára skýrist að mestu af gengismun. Félagið hyggst greiða út 200 milljónir í arð vegna síðasta rekstrarárs.

Sala Fiskkaupa dróst saman um 8,3% frá fyrra ári og nam 3,2 milljörðum. Framlegð félagsins jókst hins vegar úr 505 milljónum í 604 milljónum á milli ára. Fjöldi ársverka jókst úr 66 í 67,5 á milli ára. Laun og launatengd gjöld námu 1.092 milljónum króna. Rekstrarhagnaður félagsins nam 393 milljónum.

„Verðlækkanir á mörkuðum félagsins vegna COVID-19 hafa gengið til baka en áhrifin voru til staðar fram eftir árinu 2021. Asíu markaður er mikilvægur markaður fyrir grálúðu og gætir áhrifa COVID-19 enn að einhverju leyti á þeim markaði en fara dvínandi,“ segir í skýrslu stjórnar, sem var undirrituð í byrjun maí, í ársreikningi félagsins.

„Félagið hefur á árinu 2022 orðið fyrir neikvæðum áhrifum stríðsins í Úkraínu þar sem verð á aðföngum eins og olíu og umbúðum hefur hækkað en veruleg hækkun afurðaverðs á þorski og þorskafurðum hefur vegið þar upp á móti, þar sem framboð frá Rússlandi hefur stöðvast.“

Sjá einnig: Ein tæknivæddasta vinnsla landsins

Fiskkaup gekk fyrr í ár frá samningum um sölu á annars vegar skipinu Kristrúnu II og hins vegar skipinu Höllu Daníelsdóttur fyrir samtals 346 milljónir. Bókfært verð þeirra í árslok 2021 nam 153 milljónum.

Eignir Fiskkaupa námu ríflega sjö milljörðum króna í lok síðasta árs, þar af voru aflaheimildir bókfærðar á 4,7 milljarða. Eigið fé nam 1,9 milljörðum og eiginfjárhlutfall var 36,8% í árslok 2021.

Ásbjörn Jónsson framkvæmdastjóri er stærsti hluthafi Fiskkaupa með 58,5% hlut. Þá fer Ásdis Jónsdóttir með 31,1% í félaginu.