Fjölmargir áhættufjárfestar vestanhafs þurftu að bókfæra verulegt tap þegar matvöruheimsendingarfyrirtækið Instacart var skráð markað í vikunni.
Instacart hóf almennt frumútboð í aðdraganda skráningar á Nasdaq-hlutabréfamarkaðinn vestanhafs síðastliðinn mánudag, en bréf félagsins verða tekin til viðskipta í vikunni.
Félagið leitaðist eftir 600 milljónum dala fyrir 22 milljónir hluta sem stóð til að selja genginu 26 til 28 Bandaríkjadalir á hlut. Útboðsgengið var hækkað skömmu fyrir útboðið í 28 til 30 dali.
Verðmat félagsins samkvæmt útboðinu er um 10 milljarðar dala, en það er verulegur samdráttur frá þeim tæpu 40 milljörðum dala sem það var metið á í fjármögnunarlotu árið 2021.
Fjárfestar bókfæra verulegt tap
Samkvæmt The Wall Street Journal tóku stórir áhættusæknir fjárfestingasjóðir þátt í síðustu þremur fjármögnunarlotum fyrirtækisins er félagið sótti um 1 milljarð bandaríkjadala.
Fjárfestingafélagið T. Rowe. Price fjárfesti meðal annars í InstaCart fyrir 86 milljónir Bandaríkjadala árið 2020 en áætla má að virði hlutarins lækki um 40% í næstu viku, miðað við útboðsgengið.
Fjárfestingasjóðurinn DTS Global, sem er þekktastur fyrir að vera einn af fyrstu fjárfestum Facebook, setti 75 milljónir dala í Instacart árið 2020. General Catalyst fjárfesti einnig í fyrirtækinu fyrir 50 milljónir dala um svipað leyti en fjárfesting félaganna mun að öllum líkindum lækka um 35% í vikunni.
Nasdaq-vísitalan vænlegri kostur
Allir fjárfestar sem tóku þátt í fjármögnunarlotum Instacart frá árinu 2015 hefðu hagnast meira á því að fjárfesta í Nasdaq vísitölunni á sama tíma og selja í síðustu viku.
Að mati WSJ sýnir þetta nýjan veruleika á markaði í dag.
Fjárfestar sem helltu milljörðum dala inn í „lengra komin” sprotafyrirtæki á covid-árunum, þegar fjármagn var auðfengið, séu líklega að fara að bókfæra mikið tap á næstu árum þegar fyrirtækin fari á markað.