Nokkur umræða hefur verið um mikinn hagnað verktaka. BHM hélt því m.a. fram í nýlegri greiningu að álagning verktaka á byggingarkostnað hefði stóraukist á undanförnum árum. Þegar fyrirhuguð lækkun á endurgreiðsluhlutfalli virðisaukaskatts vegna vinnu iðnaðarmanna við nýbyggingu var kynnt í mars sagði fjármálaráðuneytið arðsemi af byggingu húsnæðis enn vera með mesta móti þrátt fyrir vaxtahækkanir.

Í báðum tilfellum er arðsemi reiknuð með því að bera saman vísitölu íbúðaverðs við byggingarvísitölu Hagstofunnar, sem inniheldur ekki stóra kostnaðarliði á borð við lóðaverð, fjármagnskostnað og hönnunarkostnað.

„Að draga ályktanir um arðsemi út frá þróun byggingarvísitölunnar gefur ekki rétta mynd af málum. Byggingarvísitalan tekur bara til lítils hluta af heildarkostnaði við uppbyggingu íbúða,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.

Samtökin hafa bent á að ef horft er til hagnaðar fyrir skatta sem hlutfall af veltu þá sé arðsemi í byggingariðnaðinum minni en gengur og gerist í viðskiptahagkerfinu. Hagnaður fyrirtækja í greininni fyrir skatta nam 5,9% af veltu árið 2022 samanborið við 11,2% árið áður.

Sigurður segir að sem betur fer séu fyrirtæki í iðnaðinum sem vegni vel en það sé alls ekki algilt. Samtökin hafa þannig bent á gjaldþrot meðal fyrirtækja í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð hafa verið með mesta móti það sem af er þessu ári. Á fyrstu þremur mánuðum ársins urðu 99 fyrirtæki í greininni gjaldþrota en á sama tíma í fyrra voru þau 33.

Viðtalið við Sigurð birtist í Fasteignablaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild sinni hér.