Fyrirtækin Hitatækni, Varmi, Rafloft og Proventa munu sameinast undir nafni Hitatækni. Kontakt fyrirtækjaráðgjöf annaðist ráðgjöf og milligöngu um sölu fyrirtækjanna. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.
Hitatækni hefur ráðið Þóri Guðmundsson sem nýjan framkvæmdastjóra sameinaðs félags. Þórir sem mun hefja störf í október er verkfræðingur frá Álaborgarháskóla og hefur starfað í Loftræstigeiranum allan sinn feril. Þórir kemur frá Ísmar þar sem hann hefur stýrt hita og loftræstideild félagsins.
Nýr framkvæmdastjóri, Þórir Guðmundsson ásamt seljendum félaganna fjögurra verða allir hluthafar í nýju sameinuðu félagi Hitatækni.
Félögin eru öll sérhæfð í loftræstibúnaði ásamt fjölbreyttum búnaði fyrir hitastýringar, kælikerfi,rakatækjum og hússtjórnarkerfum. Í tilkynningunni segir að hið sameinaða félag verði „leiðandi í innflutningi, sölu og þjónustu á loftræstisamstæðum og öðrum hlutum sem tengjast loftræstingu í allar stærðir húsnæðis, jafnt til atvinnuhúsnæðis og heimila“.
Á síðustu árum hafa félögin komið að uppsetningu og innleiðingu búnaðar fyrir mörg stærstu byggingarverkefni á Íslandi t.d. á sviði skóla, íþróttamannvirkja, gagnavera, skrifstofuhúsnæðis, híbýla og sjúkrahúsa.
Jón Þór Gunnarsson, stjórnarformaður Celsius Hitastýringar ehf.:
„Á síðustu árum hefur orðið mikil vitundarvakning á Íslandi um mikilvægi loftgæða og hversu brýnt það er að setja loftgæði í forgang við byggingarframkvæmdir og breytingar á húsnæði. Að baki Celsius Hitastýringar stendur þéttur hópur aðila sem hafa unnið saman á öðrum sviðum og sjáum við mikil tækifæri í því að auka þekkingar og tæknistig og þjónustu með bestu loftræstitækni sem völ er á. Við hlökkum til að vinna með frábærum hópi starfsfólks Hitatækni, Varma Raflofts og Proventa í að halda áfram að veita framúrskarandi lausnir og þjónustu á sviði loftræstinga. Okkar mottó er; loftgæði eru lífsgæði“.
Friðmar M Friðmarsson, framkvæmdastjóri Hitatækni ehf.:
„Þessi kaup á Hitatækni eiga sér nokkurn aðdraganda og þegar Celsius kynnti mér hugmyndir sínar í upphafi árs sá ég strax veruleg tækifæri í að byggja upp stærra og öflugra félag sem gæti aukið þjónustu og þekkingarstig viðskiptavinum okkar til hagsbóta. Ég hlakka til að taka virkan þátt í verkefnum komandi missera.“
Páll Gunnlaugsson, framkvæmdastjóri Varma ehf.:
„Það er spennandi tækifæri fyrir Varma að verða hluti af sameinuðu fyrirtæki í loftræstigeiranum á Íslandi. Sífellt meiri meðvitund er um mikilvægi loftgæða og kröfur um áreiðanleika og þjónustu á Íslandi aukast stöðugt. Sameinað félag verður stærsta sérhæfða fyrirtækið í innflutningi og þjónustu á þessu sviði og sjáum við mörg tækifæri til að auka þjónustu og lausnaúrval á Íslandi á komandi árum.“
Guðmundur H. Jóhannsson, framkvæmdastjóri Raflofts ehf og Proventa ehf.:
„Við hjá Raflofti og Proventa höfum þjónustað loftræstigeirann á Íslandi í yfir 30 ár og þegar tækifærið var kynnt okkur að verða hluti af stærra og öflugra fyrirtæki sem gæti veitt heildarlausnir fyrir okkar iðnað leist okkur vel á. Við hlökkum til að taka þátt í frekari uppbyggingu á sterkum þjónustuaðila í þessum hratt vaxandi iðnaði á Íslandi.“