Fjórum starfsmönnum hjá Ríkiskaupum var sagt upp störfum fyrir helgi en auk forstjóra vinna 22 hjá stofnuninni. Mun það því vera um 18% starfsmanna sem var sagt upp störfum í lok síðustu viku.
Í svörum Ríkiskaupa við fyrirspurn Viðskiptablaðsins um málið segir að uppsagnirnar séu tilkomnar vegna rekstrarlegra ástæðna.
Stofnunin vísar í 2. mgr. 38. gr. um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins í svörum sínum en þar segir að forstöðumaður ríkisstofnunar beri og ábyrgð á því að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma stofnunarinnar sé í samræmi við fjárlög og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt.
Samkvæmt niðurskurðar- og aðhaldsáformum í ríkisrekstri sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti í lok ágúst verður almenn aðhaldskrafa á stofnanir ríkisins 2% á næsta ári og 3% á ráðuneytin.
Með því fylgdi sérstök aðhaldskrafa í launamálum sem óhjákvæmilega leiðir til þess að fækkað verði í hópi ríkisstarfsmanna.