Hluta­bréfa­verð Icelandair og Play lækkuðu um meira en 5% við opnun markaða í dag en að öllum líkindum er heims­markaðs­verð á olíu vegna á­taka í Mið­austur­löndum að hafa á­hrif.

Um 150 milljón króna við­skipti hafa verið með bréf Icelandair í dag en Play er að lækka í ör­við­skiptum.

Miðað við gengi Icelandair um ellefu­leytið í dag hefur hluta­bréfa­verð flug­fé­lagsins lækkað um tæp 10% í októ­ber­mánuði eftir um 39% hækkun í septem­ber.

Gengi flug­fé­lagsins fór undir eina krónu í lok maí­mánaðar og var þar alveg fram í septem­ber. Gengið stendur í 1,09 krónum þegar þetta er skrifað.

Hluta­bréfa­verð Play hækkaði ör­lítið þegar leið á septem­ber­mánuð en þó ekki með sama hætti og gengi Icelandair. Gengi Play hefur lækkað um tæp 6% í ör­við­skiptum í morgun.

Heims­markaðs­verð á olíu hefur verið að hækka tölu­vert á síðustu dögum, sér í lagi vegna stig­magnandi á­taka í Mið­austur­löndum milli Ísrael, Írans og Líbanon.

Á síðustu fimm dögum hefur tunnan af Brent-hrá­olíu hækkað um tæp 10% og stendur í 78,8 dölum. Brent-hrá­olía er meðal annars notuð í elds­neyti.

Á­kvörðun Sadí Arabíu um að draga úr fram­leiðslu­skerðingum sínum til að þrýsta upp olíu­verði hafði já­kvæð á­hrif í septem­ber.

Konungs­ríkið hefur á síðustu árum haft það að mark­miði að reyna ná tunnunni af hrá­olíu upp í 100 dali með því að draga veru­lega úr olíu­fram­leiðslu.

Sú á­kvörðun hafði ó­neitan­lega já­kvæð á­hrif á flug­fé­lögin í lok septem­ber en Sádí-Arabía stefnir á að auka fram­leiðsluna að nýju í desember.

Hluta­bréfa­verð annarra flug­fé­laga líkt og Delta, Alaska Air og Jet­blu­e hefur einnig verið að lækka í utan­þings­við­skiptum vestan­hafs. Gengi Delta hefur lækkað um 2%, Alaska Air um rúm 3% og Jet blue um tæp 3%.