Hlutabréfaverð Icelandair og Play lækkuðu um meira en 5% við opnun markaða í dag en að öllum líkindum er heimsmarkaðsverð á olíu vegna átaka í Miðausturlöndum að hafa áhrif.
Um 150 milljón króna viðskipti hafa verið með bréf Icelandair í dag en Play er að lækka í örviðskiptum.
Miðað við gengi Icelandair um ellefuleytið í dag hefur hlutabréfaverð flugfélagsins lækkað um tæp 10% í októbermánuði eftir um 39% hækkun í september.
Gengi flugfélagsins fór undir eina krónu í lok maímánaðar og var þar alveg fram í september. Gengið stendur í 1,09 krónum þegar þetta er skrifað.
Hlutabréfaverð Play hækkaði örlítið þegar leið á septembermánuð en þó ekki með sama hætti og gengi Icelandair. Gengi Play hefur lækkað um tæp 6% í örviðskiptum í morgun.
Heimsmarkaðsverð á olíu hefur verið að hækka töluvert á síðustu dögum, sér í lagi vegna stigmagnandi átaka í Miðausturlöndum milli Ísrael, Írans og Líbanon.
Á síðustu fimm dögum hefur tunnan af Brent-hráolíu hækkað um tæp 10% og stendur í 78,8 dölum. Brent-hráolía er meðal annars notuð í eldsneyti.
Ákvörðun Sadí Arabíu um að draga úr framleiðsluskerðingum sínum til að þrýsta upp olíuverði hafði jákvæð áhrif í september.
Konungsríkið hefur á síðustu árum haft það að markmiði að reyna ná tunnunni af hráolíu upp í 100 dali með því að draga verulega úr olíuframleiðslu.
Sú ákvörðun hafði óneitanlega jákvæð áhrif á flugfélögin í lok september en Sádí-Arabía stefnir á að auka framleiðsluna að nýju í desember.
Hlutabréfaverð annarra flugfélaga líkt og Delta, Alaska Air og Jetblue hefur einnig verið að lækka í utanþingsviðskiptum vestanhafs. Gengi Delta hefur lækkað um 2%, Alaska Air um rúm 3% og Jet blue um tæp 3%.