Fluggeirinn mun ekki ná fyrri styrk fyrr en árið 2025 að sögn Michael O‘Leary, forstjóra breska flugfélagsins Ryanair. Hann bætir við að ört hækkandi eldsneytiskostnaður og verðbólga hafi gert það að verkum að ódýrustu flugsæti félagsins kosti 30 pund, sömu sæti og kostuðu áður 10 pund, að því er kemur fram í grein hjá The Times.

Ryanair hefur tilkynnt sína stærstu vetraráætlun til þessa, til og frá flugvöllum í Bretlandi. Þá mun flugfélagið fljúga 15% fleiri ferðir en á sama tíma árið 2019, fyrir faraldur.

Á sama tíma hefur EasyJet, helsti keppinautur Ryanair á breska flugmarkaðnum, átt í erfiðleikum með að ná aftur fyrri styrk vegna skorts á vinnuafli. O‘Leary segir að Ryanair muni innan tíðar verða stærsta flugfélagið á Bretlandi.

Hann bætir við að vegna hækkandi eldsneytisverðs sé tími ódýrra flugfargjalda liðinn, að minnsta kosti næstu árin.