Orca, ný föngunarstöð svissneska verkfræðifyrirtækisins Climeworks í jarðhitagarði ON við Hellisheiði opnar í dag. Fyrirtækið segir að þetta verði fyrsta heildstæða stöðin í heiminum sem fangar koldíoxíð úr andrúmslofti á stórum skala og dælir niður til varanlegrar geymslu. Nýja stöðin geti fangað 4.000 tonn af kolefni á ári hverju, sem verður dælt niður í berglögin og fargað með aðferð Carbfix, dótturfélags Orkuveitu Reykjavíkur.

Fjallað er um Orca í grein frá Quartz en þar segir að föngunarstöðin muni einungis fanga útblæstri frá tæplega 870 bílum á hverju ári. Orca mun hins vegar bæta afkastagetu lofthreinsivera (e. direct air capture) á heimsvísu um 50% en fyrir eru nokkrar slíkar stöðvar starfræktar í Evrópu, Kanada og Bandaríkjunum.

„Þetta er nokkuð mikilvæg áminning hvað varðar tæknina sem við virðumst treysta fyrir lífi okkar,“ skrifar Greta Thunberg, sænski aðgerðarsinninn, í færslu um greinina á Twitter.

Climeworks gerði nýlega 10 milljóna dala samning um kolefnisheimildir (e. carbon offset credits) við vátryggingafélagið Swiss Re. Ekki kom hvað heimildirnar næðu yfir mikið magn kolefnis en í fréttatilkynningu Swiss Re var verðið fyrir hvert tonn sagt hljóða upp á nokkur hundruð dali.

Í greininni segir að stórfyrirtæki gætu þó verið tilbúin að fjárfesta stórum fjárhæðum í trúverðuga kolefnisjöfnun. Þá hafa sérfræðingar sagt að verðið á kolefnisföngun hjá lofthreinsiverum gæti náð niður í 150-200 dali á næstu fimm til tíu árum.

Önnur hlið viðskiptamódels kolefnisföngunarinnar er að selja kolefnið áfram sem hrávöru, t.d. í sementsframleiðslu. Slíkir viðskiptavinir eru þó vanir verðum í kringum 100 dali á tonn.

Climeworks verður með beint streymi síðar í dag þegar Orca förgunarstöðin verður sett í gang.