Leitarsjóðurinn Seek ehf., sem er í eigu Hlöðvers Þórs Árnasonar og Leitar I slhf., hefur keypt tvö félög í upplýsingatækni: Andes ehf. og Prógramm ehf.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu en um er að ræða fyrstu kaup leitarsjóðs á Íslandi.
Seljendur eru stofnendur og lykilstarfsmenn og mun meirihluti þeirra starfa áfram með nýjum eigendum og Hlöðveri Þór sem hefur tekið við framkvæmdastjórn félaganna.
„Andes og Prógramm hafa verið í lykilhlutverki þegar kemur að stafrænni umbreytingu viðskiptavina og hyggst leitarsjóðurinn Seek sameina krafta félaganna tveggja með það að markmiði að hámarka verðmætasköpun, efla vöxt og bjóða upp á nútíma upplýsingatækniþjónustu á breiðari grunni,“ segir í tilkynningu.
„Andes ehf. var stofnað 2019 og sérhæfir sig í skýjaþjónustu og er viðurkenndur samstarfsaðili AWS (Amazon Web Services Advanced Partner - Public and Private sector). Starfsmenn Andes eru 17 í dag og þeir aðstoða fyrirtæki og stofnanir við að setja upp upplýsingatæknirekstur í skýinu ásamt því að leggja sérstaka áherslu á sjálfvirknivæðingu á hugbúnaðarþróunarferlum og útgáfum,“ segir þar enn fremur.
Prógramm var stofnað 2007 og er hugbúnaðarhús sem sérhæfir sig í þróun á flóknum hugbúnaði fyrir stofnanir og fyrirtæki. Hjá Prógramm starfa um 35 manns og hefur fyrirtækið unnið mikið fyrir opinber fyrirtæki og stofnanir.
Leitar I er framtakssjóður í stýringu Leitar Capital Partners ehf. sem er rekstraraðili sérhæfðra sjóða. Starfsemi Leitar Capital Partners, sem aðgreinir sig frá öðrum framtakssjóðum sem sérhæfður leitarsjóðafjárfestir, hófst formlega í upphafi þessa árs
Leitar Capital Partners leggur áherslu á að fjárfesta í ungu fólki og aðstoða það við að finna fyrirtæki til að kaupa og reka. Við kaupin tekur leitarinn við sem framkvæmdastjóri og stýrir fyrirtækinu í gegnum vöxt og umbreytingu þangað til fyrirtækið er selt aftur.
Félagið gekk frá 1,5 milljarða króna fjármögnun í fyrra en breiður hópur fjárfesta og rekstraraðila kemur að sjóðnum sem mun einbeita sér að fjárfestingum í sérstökum leitarsjóðum (e. search funds).
Leitarsjóður er heiti yfir félag sem er stofnað utan um ungan frumkvöðul, oft nefndur leitari, sem Leitar fjármagnar til að finna fyrirtæki til að kaupa. Viðkomandi tekur við sem framkvæmdastjóri við kaup og stýrir fyrirtækinu í gegnum vöxt og umbreytingu þar til ákvörðun er tekin að selja aftur. Einnig fær leitarinn hlut í fyrirtækinu í upphafi sem getur stækkað í hlutfalli við ávöxtun fjárfesta.
Ekki venjan að leitarsjóðir kaupi fleiri en eitt fyrirtæki í einu
„Í grunninn snýst módelið um að tengja saman öfluga einstaklinga og reynslumikla fjárfesta í gegnum leit og kaup á góðu fyrirtæki. Við hjá Leitar erum ánægð að tilkynna kaup Hlöðvers á tveimur spennandi og vaxandi upplýsingatæknifyrirtækjum. Það hefur verið einkar ánægjulegt að fá að taka þátt í leitinni hans Hlöðvers og sjá að leitarsjóðamódelið virkar á smærri mörkuðum eins og Íslandi. Það er ekki venjan að leitarsjóðir kaupi fleiri en eitt fyrirtæki í einu þó að það sé sterk hefð í módelinu að fylgja upphaflegum kaupum eftir með frekari fjárfestingum síðar. Í þessu tilfelli var tímapunkturinn hins vegar réttur. Við kaup Hlöðvers á Andes og Prógramm lauk leit hans og tekur hann við stjórnun og rekstri þeirra þar sem hann mun vinna með nýrri stjórn að þeim verkefnum og framtíðarsýn sem mörkuð voru í aðdraganda kaupanna,” segir Einar Steindórsson, framkvæmdastjóri Leitar Capital Partners.
„Andes og Prógramm vöktu strax áhuga minn þegar leitin hófst, hvort fyrir sína sérstöðu. En þegar ég áttaði mig á tækifærunum sem felast í því að sameina krafta þeirra, þá var ekki aftur snúið. Bæði félög hafa verið vel rekin og í góðum vexti en mannauðurinn er einstakur. Ég er spenntur fyrir næsta kafla og áherslan fram undan er að styðja við frekari vöxt í mannauði og verkefnum,” segir Hlöðver Þór Árnason, eigandi leitarsjóðsins Seek.
„Frá stofnun höfum við í Andes sem vottaður samstarfsaðili AWS verið leiðandi fyrirtæki í skýjavæðingu fyrirtækja og stofnana. Á þeim tíma höfum við stutt við nútímavæðingu upplýsingatækniinnviða yfir 40 viðskiptavina, og ljóst að skýjavegferðin er rétt að byrja. Með samstarfi Andes og Prógramm verður til kröftugt félag um stafræna nýsköpun og nútímaupplýsingatækni. Við hlökkum til að hefja nýjan kafla í enn öflugra félagi,” segir Ari Viðar Jóhannesson, framkvæmdastjóri og einn stofnenda Andes.
Nú tekur við nýr kafli hjá nýjum eigendum og við efumst ekki um að Prógramm muni áfram marka spor í sögu hugbúnaðargerðar á Íslandi,”
„Prógramm var stofnað árið 2007 og frá þeim tíma hefur fyrirtækið verið rekið af stofnendum þess. Fyrirtækið hefur vaxið og dafnað og er í dag með 35 starfsmenn og fjölda viðskiptavina. Nú tekur við nýr kafli hjá nýjum eigendum og við efumst ekki um að Prógramm muni áfram marka spor í sögu hugbúnaðargerðar á Íslandi,” segir Kristján Þór Kristjánsson, framkvæmdastjóri Prógramm.