Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, telur að Landsbankinn ætti að vera rekinn sem samfélagsbanki í eigu ríkisins sem skili aðeins lágmarksarðsemi og sé leiðandi í að halda vaxtamun og bankakostnaði niðri. Þetta kemur fram á mbl.is .

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í morgun sagði Frosti á Facebook-síðu sinni í gær að það samrýmdist ekki markmiðum um efnahagslegan stöðugleika og þjóðarhagsmuni að selja erlendum aðilum bankana. Telur hann að erlendur kaupandi gæti sogað hundruði milljarða í gjaldeyri út úr hagkerfinu á einum áratug í formi arðgreiðslna.

Frosti segir í samtali við mbl.is að erlendir aðilar séu ekki til þess fallnir að lækka kostnað til viðskiptavina með aukinni samkeppni þar sem þeirra helsta markmið sé að græða og þeir muni því halda uppi sem mestum kostnaði. Þeir þurfi hins vegar að fylgja Landsbankanum haldi hann gjöldum og vöxtum lágum og slíkt gæti skilað sér í tugum milljarða í sparnaði á fjármagnskostnaði hér á landi ár hvert.

Hann segir jafnframt að hér á landi séu sérstakar aðstæður sem lýsi sér í fákeppni og markaðsbrestum á bankamarkaði. Verði Landsbankinn gerður að samfélagsbanka sem rekinn sé fyrir lága arðsemi dragi það úr áhættunni við að selja hina bankana erlendum aðilum.