Greint var frá því í morgun að Samkeppniseftirlitið hafi hafið rannsókn á málefnum tengdum Guðmundi Kristjánssyni, forstjóra HB Granda og aðaleigenda Útgerðarfélags Reykjavíkur, sem áður hét Brim.

Fram kom í frummati frá stofnuninni að Guðmundur væri hugsanlega sekur um alvarleg brot.

Samkeppniseftirlitið hefur nú sent frá sér tilkynningu vegna málsins þar sem áréttað er að endanleg niðurstaða í málinu liggi ekki fyrir.

„Það frummat sem kynnt var aðilum máls byggði á fyrirliggjandi upplýsingum á þeim tíma. Var frummatið sett fram til þess að gefa hlutaðeigandi aðilum tækifæri til þess bregðast við því og koma skýringum og sjónarmiðum á framfæri. Af eðli máls leiðir að umrætt frummat getur því breyst. Aðilar málsins hafa nú komið á framfæri skýringum og sjónarmiðum vegna málsins, þ.á.m þess efnis að Guðmundur var genginn úr stjórn Vinnslustöðvarinnar þegar athugun Samkeppniseftirlitsins hófst." segir í tilkynningunni.

Í lokinn er tekið fram að stofnunin fari nú yfir fram komnar skýringar í málinu og afla upplýsinga áður en ákvörðun um mögulega íhlutun verði tekin.