„Við skiljum áhyggjur fólks yfir því hvernig þetta [gervigreindartækni] getur breytt því hvernig við lifum,“ sagði Sam Altman, framkvæmdastjóri OpenAI á fundi Dómsmálanefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings í dag. Fundurinn fór fram milli 14:00-17:00 á íslenskum tíma.

Altman hvatti þingið til að búa til einhvers konar öryggisstaðla utan um háþróaða gervigreindartækni sem fyrirtæki þurfi að fylgja eftir.

Altman kallaði jafnframt eftir því að allir vinni saman að því að greina mögulegar neikvæðar hliðar gervigreindarinnar svo að heildin geti notið góðs af jákvæðum hliðum tækninnar.

OpenAI er hvað þekktast fyrir hönnun á gervigreindarforritinu ChatGPT. Um 100 milljónir manna nota forritið í dag. Altman segir að OpenAI sé sífellt að uppfæra ChatGPT. Því fleiri notendur, því auðveldara sé fyrir fyrirtækið að greina það sem betur megi fara í tækninni á bak við forritið.

„Það er mikilvægt að fólk skilji að GPT-4 [nýjasta uppfærslan af ChatGPT] er tæki, ekki lifandi vera. Þetta er tæki sem fólk hefur fullkomna stjórn á," bætti hann við.

Á fundinum lýstu þingmenn áhyggjum sínum yfir því hvernig gervigreind geti mögulega haft áhrif á hina ýmsu hluti, allt frá kosningum og fréttaflutningi, yfir í hernaðaraðgerðir og hugverkaþjófnað.