Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku banka, segir að hlutafjárútboð Icelandair í september 2020 hafi sennilega verið áhugaverðasta verkefnið sem hann hafi tekið þátt í á sínum starfsferli. Kvika starfaði ókeypis sem helsti ráðgjafi flugfélagsins í kringum útboðið.

„Þetta var mjög krefjandi verkefni og við vörðum miklum tíma í þetta. Ætli ég hafi ekki fundað með Boga [Nils Bogasyni, forstjóri Icelandair] og hans fólki nánast daglega í 6-9 mánuði,“ segir Marinó í nýjasta hlaðvarpsþætti Chess after Dark.

Icelandair sótti ríflega 30 milljarða króna í umræddu hlutafjárútboði en flugfélagið var í fjárhagslegum kröggum eftir að flug lagðist nær alfarið niður vegna kórónuveirufaraldursins. Félagið tapaði yfir 40 milljörðum króna á fyrri árshelmingi 2020 og lausafjárstaða félagsins var í kringum 20 milljarða í lok annars fjórðungs. Alls var óvíst hvort flugfélagið myndi lifa faraldurinn af.

„Ég tel að það sé ekkert mikilvægara fyrir Ísland heldur en samgöngur og fjarskipti. Þarna voru í sjálfu sér bara samgöngurnar okkar að fara,“ segir Marinó um ástæðuna fyrir því að Kvika rétti fram hjálparhönd.

Gríðarleg þjóðhagsleg áhætta með bankaleiðinni

Hann segir að alls konar hugmyndir hafi verið uppi á þessum tíma varðandi Icelandair, þar á meðal hafi menn töluvert rætt um, bæði opinberlega og sín á milli, að láta Icelandair fara sömu leið bankarnir í fjármálahruninu árið 2008 með því að stofna nýtt félag á grunni Icelandair.

„Eins og ég hugsaði þetta þá var efnahagsreikningurinn hjá Icelandair ekki nærri því jafn stór eins og hjá bönkunum. Þjóðhagsleg áhætta að fara þessa leið væri gríðarlega mikil. Ég hringdi þá í Boga og sagði honum að ég hefði áhuga á að við myndum aðstoða þá við þetta.“

Marinó tjáði Boga að sér fyndist mikilvægt að Kviku yrði falið þetta verkefni þar sem bankinn væri sá eini hér á landi sem bæri ekki mikla fjárhagslega áhættu vegna Icelandair. Einnig hafi fjárhagsleg áhætta Kviku vegna íslenskrar ferðaþjónustu verið tiltölulega lítil.

„Hugsunin var miklu frekar hjá okkur að við störfum aðallega á Íslandi. Að okkar mati var þetta mikilvægasta verkefnið til þess að íslenska hagkerfið myndi aftur ná viðspyrnu eftir Covid. Það er nú svoleiðis að þegar það er eitthvað sem skiptir miklu máli þá viltu frekar taka þátt í að finna lausnina frekar heldur en að bíða og horfa á einhverja aðra gera það.“

Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku banka, segir að hlutafjárútboð Icelandair í september 2020 hafi sennilega verið áhugaverðasta verkefnið sem hann hafi tekið þátt í á sínum starfsferli. Kvika starfaði ókeypis sem helsti ráðgjafi flugfélagsins í kringum útboðið.

„Þetta var mjög krefjandi verkefni og við vörðum miklum tíma í þetta. Ætli ég hafi ekki fundað með Boga [Nils Bogasyni, forstjóri Icelandair] og hans fólki nánast daglega í 6-9 mánuði,“ segir Marinó í nýjasta hlaðvarpsþætti Chess after Dark.

Icelandair sótti ríflega 30 milljarða króna í umræddu hlutafjárútboði en flugfélagið var í fjárhagslegum kröggum eftir að flug lagðist nær alfarið niður vegna kórónuveirufaraldursins. Félagið tapaði yfir 40 milljörðum króna á fyrri árshelmingi 2020 og lausafjárstaða félagsins var í kringum 20 milljarða í lok annars fjórðungs. Alls var óvíst hvort flugfélagið myndi lifa faraldurinn af.

„Ég tel að það sé ekkert mikilvægara fyrir Ísland heldur en samgöngur og fjarskipti. Þarna voru í sjálfu sér bara samgöngurnar okkar að fara,“ segir Marinó um ástæðuna fyrir því að Kvika rétti fram hjálparhönd.

Gríðarleg þjóðhagsleg áhætta með bankaleiðinni

Hann segir að alls konar hugmyndir hafi verið uppi á þessum tíma varðandi Icelandair, þar á meðal hafi menn töluvert rætt um, bæði opinberlega og sín á milli, að láta Icelandair fara sömu leið bankarnir í fjármálahruninu árið 2008 með því að stofna nýtt félag á grunni Icelandair.

„Eins og ég hugsaði þetta þá var efnahagsreikningurinn hjá Icelandair ekki nærri því jafn stór eins og hjá bönkunum. Þjóðhagsleg áhætta að fara þessa leið væri gríðarlega mikil. Ég hringdi þá í Boga og sagði honum að ég hefði áhuga á að við myndum aðstoða þá við þetta.“

Marinó tjáði Boga að sér fyndist mikilvægt að Kviku yrði falið þetta verkefni þar sem bankinn væri sá eini hér á landi sem bæri ekki mikla fjárhagslega áhættu vegna Icelandair. Einnig hafi fjárhagsleg áhætta Kviku vegna íslenskrar ferðaþjónustu verið tiltölulega lítil.

„Hugsunin var miklu frekar hjá okkur að við störfum aðallega á Íslandi. Að okkar mati var þetta mikilvægasta verkefnið til þess að íslenska hagkerfið myndi aftur ná viðspyrnu eftir Covid. Það er nú svoleiðis að þegar það er eitthvað sem skiptir miklu máli þá viltu frekar taka þátt í að finna lausnina frekar heldur en að bíða og horfa á einhverja aðra gera það.“