Suðurkóresk flugmálayfirvöld segjast hafa fundið fjaðrir í báðum hreyflum á Boeing 737-800 flugvélinni sem fórst í síðasta mánuði. Þetta bendir til að fuglar gætu mögulega hafa sogast inn í hreyflana áður en flugvélin hrapaði.

Allar upplýsingar um flugslys Jeju Air, sem varð 179 af 181 farþega að bana þann 30. desember sl., hafa þó ekki verið gerðar opinberar og hafa bæði suðurkóresk- og bandarísk yfirvöld ekki viljað tjá sig um málið.

Yfirvöld telja að báðir hreyflarnir hafi að líkindum misst afl skömmu áður en flugmaður reyndi að nauðlenda vélinni.

Flugritararnir tveir ásamt raddupptökutæki úr stjórnklefanum misstu af síðustu mínútunum fyrir slysið sem bendir til þess að vélin hafi misst allt rafmagn áður en hún hrapaði.

Flugvélin, sem er forveri Boeing 737 Max, nauðlenti án lendingarbúnaðar á flugbrautinni og sprakk síðan eftir að hafa lent á steyptri byggingu sem sat handan við flugbrautina. Slysið átti sér einnig stað nokkrum mínútum eftir að flugturninn hafði varað við hættu á fuglum á svæðinu.