Fyrrum eigendur Kersins í Grímsnesi komust allir á lista yfir fjármagnstekjuhæstu Íslendingana árið 2023, samkvæmt álagningarskrá ríkisskattsstjóra. Ætla má að einhver hluti þeirra tekna komi frá sölu Kersins í fyrra.
Fyrrum eigendur Kersins í Grímsnesi komust allir á lista yfir fjármagnstekjuhæstu Íslendingana árið 2023, samkvæmt álagningarskrá ríkisskattsstjóra. Ætla má að einhver hluti þeirra tekna komi frá sölu Kersins í fyrra.
Greint var frá því í október 2023 að Arctic Adventures hefði keypt allt hlutafé í Kerfélaginu af þeim Óskari Magnússyni, Ásgeiri Bolla Kristinssyni, Sigurði Gísla Pálmasyni og Jóni Pálmasyni, sem áttu hver sinn fjórðungshlut.
Sigurður Gísli og Jón Pálmasynir, eigendur Ikea á Íslandi og í Eystrasaltsríkjunum, voru samanlagt með tæplega 2,5 milljarða króna í fjármagnstekjur á meðan Óskar Magnússon, rithöfundur og stjórnarformaður Eimskips, var með 419 milljónir og Ásgeir Bolli Kristinsson, sem hefur verið kenndur við verslunina Sautján, var með 293 milljónir.
Þegar skipt var um eigendur Kerfélagsins var kaupverðið trúnaðarmál og líklega er stór hluti fjármagnstekna hjá fjórmenningunum sem hér eru nefndir til kominn vegna annarra verkefna. Þó má eins og áður segir ætla að einhver hluti sé tilkominn vegna sölunnar.
Árið 2022, síðasta rekstrarárinu fyrir söluna, nam hagnaður Kerfélagsins 62 milljónum króna og tekjur námu 130 milljónum. Eigið fé félagsins í árslok 2022 nam 172 milljónum.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast listann yfir 150 fjármagnstekjuhæstu einstaklingana árið 2023 í heild hér.