Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra afhenti formlega fyrsta 100% rafmagnsdrifna steypubílinn á Íslandi við höfuðstöð Steypustöðvarinnar í gær. Fyrsta verkefni Steypustöðvarinnar á nýja bílnum var að flytja steypu til nýja Landspítalans.

„Markmiðið er algjör skipti á orkugjafa. Við erum í dag með 36 steypubíla og 13 dælur, og við sjáum fyrir okkur að skipta þessu út fyrir rafmagn,” segir Björn Ingi Victorsson, forstjóri Steypustöðvarinnar.

Fyrirtækið, sem kolefnisjafnaði allan sinn rekstur árið 2021, hefur nú vegferðina að rafvæðingu.

„Nú erum við að taka risastór skref mjög hratt, þegar kemur að rafbílum, og þetta er fyrsti steypubíllinn. Einhver hefði sagt bara fyrir nokkrum mánuðum að það væri ekki möguleiki, en nú er það að raungerast,” er haft eftir Guðlaugi Þór.