Heildverslunin Garri hagnaðist um 550 milljónir króna árið 2023, samanborið við 623 milljónir króna árið 2022. Stjórn félagsins leggur til að allt að 200 milljónir króna verði greiddar út í arð til hluthafa í ár, að því er segir í ársreikningi félagsins.
Velta heildverslunarinnar jókst um 12,8% milli ára og nam 9.150 milljónum króna. Rekstrarhagnaður (EBIT) Garra lækkaði um 19,8% milli ára og nam 678 milljónum króna. Ársverkum fjölgaði úr 75 í 84 milli ára.
Í skýrslu stjórnar í ársreikningi félagsins kemur fram að félagið réðst í framkvæmdir á síðasta árinu til þess að styðja við áframhaldandi vöxt og auka framleiðni.
„Hinsvegar voru aðstæður í ytra umhverfi félagsins krefjandi á árinu, tíðar verðhækkanir á aðföngum vegna vaxandi verðbólgu og vaxtastigs bæði á Íslandi og í Evrópu. Við reiknum með að félagið muni ekki sveiflast jafn mikið í umfangi á næstu árum en haldi áfram að dafna eins og það hefur gert síðastliðin 50 ár.“
Þá segist félagið ætla að leggja áfram sitt af mörkum til þess að Ísland sé viðráðanlegur viðkomustaður fyrir ferðamenn.
Eignir Garra námu 2,4 milljörðum króna í árslok 2023 og eigið fé var um 574 milljónir króna.
Eignir Garra námu 2,4 milljörðum króna í árslok 2023 og eigið fé var um 574 milljónir króna. Félagið var í lok síðasta árs í 83% eigu Magnúsar R Magnússonar og 17% eigu GFG ehf., sem er í jafnri eigu Magnúsar og Kristjönu Kristjánsdóttur.