Íslenska sprotafyrirtækið GemmaQ var valið á lista New York VC Network yfir tíu mest spennandi ESG sprota á heimsvísu til að fylgjast með á árinu 2022. Vettvangur vísifjárfesta í New York (New York VC Network), sem samanstendur af rúmlega 700 sjóðum og fjárfestum, setti saman listann. Við matið var horft til teymis, áhrifa og aðdráttarafls (e. traction) og möguleika nýsköpunarfyrirtækis til vaxtar.
Á listanum eru sprotar sem starfa á svokölluðum ESG markaði (eða UFS: umhverfisþættir, félagslegir þættir og góðir stjórnarhættir) og vinna að tæknilausnum og aðferðum fyrir ábyrgar fjárfestingar og sjálfbærni.
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Markaður með ESG upplýsingar hefur vaxið gífurlega síðustu ár og nam 2.2 milljörðum Bandaríkjadala á árinu 2020 samkvæmt markaðsrannsókn UBS banka . Þá hafa fjárfestingar með svokölluðum jafnréttis gleraugum (e. Gender-lens investing) vaxið hvað mest meðal ábyrgra fjárfestinga á síðustu árum - og eignir í stýringu gender-lens vísitölusjóða vaxið frá því að vera 3,4 milljarðar Bandaríkjadala á árinu 2019 í 11 milljarða Bandaríkjadala á heimsvísu í dag.