Gengi bandaríska bílaframleiðandans hefur fallið um 14% í framvirkum samningum eftir að fyrirtækið tilkynnti um sölu á breytanlegum skuldabréfum að fjárhæð 325 milljón bandaríkjadala sem samsvarar ríflega 43 milljörðum íslenskra króna.
Nikola framleiðir þunga rafknúna vörubíla og var fyrsta fyrirtækið til að selja tvinnbíla sem gengu fyrir bæði rafmagni og metangasi.
Samhliða tilkynningunni um skuldabréfaútboðið greindi fyrirtækið frá því að óvissa ríkir um hvenær framleiðsla á rafknúnum vörubílum fyrirtækisins geti haldið áfram eftir að fyrirtækið innkallaði 209 bíla nýverið eftir eldsvoða í einum bíl.
Rannsókn leiddi í ljós að galli í rafgeyma bílsins hafi verið orsökin af eldsvoðanum.
Innkölluðu 60% af seldum bílum
Fyrirtækið sagði einn af íhlutum rafgeymana hefði líklega valdið leka í kælivökva í einum af vörubílunum. Rafhlaðan hafði þá ofhitnað sem varð til þess að það kviknaði í bílnum. Vörubíllinn sat þá á bílaplani við höfuðstöðvar fyrirtækisins í Phoenix í Arizona-fylki þann 23. júní þegar hann varð alelda.
Ökutækin sem voru innkölluð eru rúmlega 60% af öllum rafknúnum vörubílum sem fyrirtækið hefur framleitt undanfarið ár.
Gengi fyrirtækisins hrundi í kjölfarið og hefur lækkað um 21% síðastliðinn mánuð. Dagslokagengið 3. ágúst var 3,4 bandaríkjadalir en það mun opna í kringum 1,6 dölum í dag.