Hluta­bréfa­verð flug­félagsins Play fór aftur undir eina krónu í dag er gengi þess lækkaði um 9% í ör­við­skiptum.

Gengi flug­félagsins fór undir eina krónu á hlut í lok október en tók síðan að hækka á ný í byrjun nóvember. Dagsloka­gengi Play var 0,99 krónur í dag og hefur gengið lækkað um 49% síðastliðinn mánuð.

Hluta­bréfa­verð Ocu­lis hélt áfram að lækka í við­skiptum dagsins en eftir miklar hækkanir í október­mánuði hefur gengi félagsins verið að færast niður á við í nóvember.

Gengi Ocu­lis lækkaði um rúm 4% í við­skiptum dagsins og hefur gengið lækkað núna um 12% frá nóvember­mánuði. Dagsloka­gengi Ocu­lis var 2160 krónur og hefur það hækkað um 28% á árinu.

Hluta­bréfa­verð Reita leiddi hækkanir á aðal­markaði er gengi fast­eignafélagsins fór upp um 4% og var dagsloka­gengið 104 krónur. Gengi félagsins hefur ekki verið hærra í rúm tvö ár en félagið birti árs­hluta­upp­gjör eftir lokun markaða í gær.

Lang­mesta veltan var með bréf Marels en gengi félagsins var óbreytt í 600 krónum eftir 1,9 milljarða króna við­skipti.

Heildar­velta á markaði var 5,3 milljarðar og lækkaði úr­vals­vísi­talan um 0,29%.