Gengi hlutabréfa í Snap Inc., félaginu sem á samskiptamiðilinn Snapchat, lækkaði um þriðjung í viðskiptum fyrir markað eftir að félagið gaf út afkomuviðvörun. Þar varaði Snap við því að félagið myndi hægja á ráðningum og útgjöldum á næstu misserum. Þetta kemur fram í grein hjá Wall Street Journal.

Félagið segist glíma við ýmis vandamál, þar á meðal vaxandi verðbólgu og breyttri friðhelgisstefnu Apple.

„Það eru ýmis vandamál í þjóðhagsumhverfinu sem hafa neikvæð áhrif á reksturinn okkar,“ sagði Evan Spiegel, forstjóri Snap, í ráðstefnu á vegum JP Morgan í gær.

Í tilkynningu til starfsfólks félagsins sagði Spiegel að þótt tekjurnar væru áfram að vaxa, þá væru þær að vaxa hægar en áður var búist við á þessum tímapunkti.

Gengi hlutabréfa Snap féll um meira en 30% í viðskiptum eftir markað og fór niður fyrir 16 dali á hlut. Gengi bréfa félagsins hefur lækkað meira en 80% frá því í september í fyrra.

Gengi bréfa hjá öðrum samfélagsmiðlum lækkaði einnig eftir tilkynninguna frá Snap. Þannig lækkaði gengi bréfa Meta Platforms um meira en 7% og gengi Pinterest Inc um 10%.