Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands tilkynnti í morgun um 25 punkta vaxtahækkun og verða meginvextir bankans því 6%.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri, Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu, og Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, gerðu grein fyrir vaxtahækkuninni á blaðamannafundi nú í morgun.

Á fundinum var Ásgeir meðal annars spurður út í veikingu krónunnar og hvort heppilegra væri fyrir bankann að halda undir gengið, frekar en að hækka vexti, til að stemma stigu við verðbólgunni.

Ásgeir segir veikingu krónunnar skýrast fyrst og fremst af miklum vöruskiptahalla.

„Það liggur fyrir að það er gríðarlega mikill vöruskiptahalli, sem er að einhverju leyti afleiðing af mikilli einkaneyslu.“

Ásgeir bætir við að mikill kaupmáttur sé til staðar í kerfinu. Fólk sé enn með uppsafnaðan pening frá tveggja ára kórónuveirufaraldri sem það nýtir nú til neyslu. Hann segir það ekki ganga til lengdar að Seðlabankinn fjármagni þessa einkaneyslu með gjaldeyrisvaraforðanum.

„Seðlabankinn er með inngripastefnu sem snýst að einhverju leyti um að mýkja sveiflur, sem við höfum gert. Á sama tíma getum við ekki fjármagnað Teneferðir úr forðanum. Ef við erum með undirliggjandi viðskiptahalla, þá getum við ekki haldið upp gengi krónunnar með inngripum. Þá verðum við frekar að hækka stýrivexti eða beita öðrum tækjum til að takmarka neysluna."