Skráðar gistinætur í apríl voru um 491.000 sem er um 13% minna en í apríl 2023 þegar þær voru 563.000. Fjöldi gistinátta á hótelum var 330.700 sem er 9,7% minna en í apríl í fyrra.
Þetta kemur fram í tölum Hagstofunnar en þar segir jafnframt að um 76% gistinátta í apríl voru meðal erlendra ferðamanna. Þetta samsvarar 15% fækkun frá því í fyrra.
Gistinætur Íslendinga voru einnig 4,7% minni en á sama tíma árið 2023. Gistinætur á hótelum og gistiheimilum voru um 380.000 og um 111.000 á öðrum tegundum skráðra gististaða (íbúðagisting, orlofshús o.s.frv.).
„Töluverður samdráttur var í hótelgistingu í öllum landshlutum, þar af hlutfallslega mestur á Austurlandi (-18%) og Norðurlandi (-17%). Á höfuðborgarsvæðinu fækkaði gistinóttum á hótelum í apríl um 10% á milli ára.“
Framboð hótelherbergja í apríl jókst hins vegar um 3,1% miðað við apríl 2023. Á sama tíma dróst herbergjanýting á landinu saman um 7,1 prósentustig og dróst herbergjanýting saman í öllum landshlutum, en þá mest á Suðurlandi (-10,7) og Norðurlandi (-7,7).
Áætlað er að óskráðar gistinætur erlendra ferðamanna í heimagistingu í apríl hafi verið um 61.000 í gegnum vefsíður sem miðla heimagistingu og um 10.000 hjá vinum og ættingjum en að fjöldi gistinátta erlendra ferðamanna í húsbílum hafi verið um 3.000.