Góa-Linda sælgætisgerð hagnaðist um 71 milljón króna á síðasta ári samanborið við 61 milljón árið 2020. Félagið, sem er í 94% eigu Helga Vilhjálmssonar, hyggst greiða út 25 milljónir króna í arð.

Velta Góu nam 1,36 milljörðum króna í fyrra og jókst um 25 milljónir á milli ára. Rekstrargjöld voru nær óbreytt og námu 1,28 milljörðum. Þar af voru laun og launatengd gjöld 423 milljónir en ársverk voru 48.

„Undanfarin ár hefur sala og afkoma félagsins aukist árlega. Stjórnendur gera ráð fyrir að sú þróun haldi áfram. Helstu aðföng félagsins eru innflutt og hefur félagið ekki lent í vandræðum við öflun aðfanga þrátt fyrir Covid-19 faraldur undanfarinna ára,“ segir í skýrslu stjórnar í ársreikningi Góu.

Eignir Góu voru bókfærðar á 1,2 milljarða króna í árslok 2021 og eigið fé var ríflega einn milljarður.