„Við höfum unnið að þessum kaupum í um eitt og hálft ár, en varið síðustu átta árum í rannsóknar- og greiningarvinnu. Við teljum okkur núna vera með rannsóknar- og vinnsluleyfi á öllu því svæði í Suður-Grænlandi sem inniheldur auðsækjanlega málma," segir Eldur Ólafsson forstjóri AEX Gold, en félagið hefur samið við franska stórfyrirtækið Orano Group um að AEX eignist tvö leitarleyfi sem ná yfir svæði á Suður-Grænlandi.

„Við höfum unnið að því að skilgreina hvar bestu beltin liggja, bæði fyrir gull en einnig fyrir svokallaða „strategic" og græna málma, sem notaðir eru til framleiðslu á batterí fyrir rafbílavæðingu sem og tölvur, síma og annað sem við notum á hverjum degi." Eldur ítrekar að einungis sé unnið á vel rannsökuðum svæðum.

„Það má líkja þessu við jarðhitasvæðin okkar Íslendinga. Þau byrja á Reykjanesi og ef maður fylgir rekbeltinu þá liggja þessu svæði öll á þessu belti allt að Bjarnarflagi fyrir norðan. Sama má segja um Norður-Ameríku og Evrópu, Grænland lá þarna á milli þegar heimsálfurnar voru eitt svæði og þannig finnum við svæðin sem eru áhugaverð til rannsókna," segir Eldur.

Sjá einnig: Tvöfalda leitarsvæðið á Grænlandi

Félagið er nú komið með leyfi sem nær yfir 7,616 ferkílómetra svæði á Grænlandi. Þannig er AEX orðinn stærsti leyfishafinn á Suður-Grænlandi og þriðji stærsti á Grænlandi öllu. Á leyfissvæðunum sem félagið er nú að eignast er að finna málma eins og. nikkel, kopar, sink, blý, títaníum, vanadíum, grafít og svokallaða sjaldgæfa jarðmálma auk gulls.

Allt nikkel í heiminum skiptist í súlfíð og laterít, en það fyrrnefnda er notað til framleiðslu á batteríum, sem meðal annars er nýtt til rafbílaframleiðslu og telst því afar mikilvægt hráefni fyrir hin margumtöluðu orkuskipti. Eldur bendir á að einungis tvær námur framleiði stóran hluta nikel súlfíðs í heiminum, þær séu í Rússlandi og Kanada.

„Á sama tíma stefnir í að öll Evrópuríki fyrir utan Ísland verða komin með batteríverksmiðju á næstu árum. Því mun eftirspurn eftir nikkel súlfíði aukast mikið á næstunni. Það þarf að vera til meira af nikkel súlfíð svo hægt sé að búa til batterí sem geyma raforku í stað þess að nota olíu."

Miklir möguleikar á Grænlandi

Alþjóðlegt mikilvægi Suður-Grænlands er alltaf að aukast, ekki síst vegna þess að þar er að finna marga þá málma sem nauðsynlegir eru fyrir orkuskipti í heiminum. Á svæðinu er að finna 1,5% af þeim sjaldgæfu jarðmálmum sem vitað er um í heiminum, en framkvæmdastjórn ESB telur að hlutfallið gæti hækkað í allt að 9,2% með auknum rannsóknum.

Eldur segir spennuna á milli vestrænna lýðræðisríkja og alræðisríkja gera Grænland að enn fýsilegri kost til námuvinnslu. Það skipti sköpum að mikilvægar náttúruauðlindir séu unnar í vestrænum réttarríkjum. Hann segir Grænland vera með tiltölulega óunnið svæði, sérstaklega í samanburði við önnur ríki sem skarta slíkum auðlindum. „Það er ekkert nýtt ríki sem á eftir að rannsaka fyrir utan Kólumbíu, Afganistan og Grænland. Það er búið að rannsaka önnur svæði á síðustu 100 árum."

Um 55 þúsund manns búa í Grænlandi og hefur fjöldi íbúa staðið í stað í um þrjá áratugi. Á sama tíma vantar vinnuafl til að starfa við námurnar.

„Þetta er stærsta tækifæri Íslands á næstu hundrað árum. Það vantar þúsundir manna til að byggja námurnar. Það vantar meðal annars verkfræðinga, borara, forritara, vélvirkja, rafvirkja. Það þarf einnig græna orku, sem við höfum þekkingu á að búa til á Íslandi til að vinna þessa málma líkt og við gerum í íslandi þegar við framleiðum ál. Við Íslendingar höfum innviði og þekkingu til að aðstoða Grænlendinga," segir Eldur.

Hann segir íslensk fyrirtæki standa sig vel í þessum efnum. „Fyrirtæki eins og Ístak, Verkís, Eimskip, og Icelandair, þau eru öll að vinna gríðarlega gott starf."

Úr AEX Gold í Amaroq Minerals

AEX Gold hefur tilkynnt að borin verði upp tillaga á næsta aðalfundi í júní um að breyta nafni fyrirtækisins í Amaroq Minerals Ltd.

„Við störfum á grænlenskum forsendum og í samstarfi við Grænland. Hjá okkur starfa Grænlendingar við mismunandi hlutverk, til að mynda í stjórn en einnig starfa hjá okkur grænlenskir jarðfræðingar. Því er við hæfi að vera með grænleska skírskotun í nafni félagsins, þar sem þetta er í raun grænlenskt félag."

Hann segir hlutverk félagsins ekki lengur einskorðast við að grafa gull. Því sé tilvalin tímasetning að breyta nafninu í takt við aukin umsvif félagsins. „Við erum með tíu vel þróuð svæði sem við munum halda áfram að rannsaka. Svæðin innihalda 29 málma af ýmsu tagi, þar á meðal gull. Amaroq Minerals á betur við yfir allt það sem við erum að gera í Grænlandi."