The Better Body Group (BBG), ein stærsta einkaþjálfunarstöð Bretlands, og Greenfit á Íslandi hafa gert með sér samstarfssamning sem felur í sér að bera saman gögn milli landanna og skoða hvað er líkt og ólíkt með heilsufari beggja þjóða.

Jason Crow, eigandi og framkvæmdastjóri Better Body Group, var staddur á landinu vorið 2022 og kom þá í ástandsskoðun hjá Greenfit.

Már Þórarinsson, framkvæmdastjóri Greenfit, segir að Crow hafi heillast mjög af hvetjandi framsetningu gagna í nýrri tæknilausn sem Greenfit hefur verið að þróa. Í framhaldi óskaði hann eftir því að fá að nýta þá nýstárlegu tæknilausn fyrir heilsuræktarstöðvar sínar í Bretlandi.

„Jason er mjög spenntur að koma að þróun á tæknilausn Greenfit og aðstoða við að koma henni á markað í Bretlandi,” segir Már um samstarfið.

Tæknilausn Greenfit setur niðurstöður mælinga fram á myndrænan og hvetjandi hátt og gefur viðskiptavinum innsýn í niðurstöður sínar, samanburð við jafnaldra og hvata til lífsstílsbreytinga sem skila árangri. Markmið tæknilausnarinnar er að valdefla fólk, bæta heilsulæsi einstaklinga og hjálpa fólki að auka lífsgæði og fjölga heilbrigðum æviárum ásamt því að bæta árangur í íþróttum og endurheimt.

Í tilkynningu segir að með samstarfinu muni tæknilausn Greenfit jafnframt geta þróast hraðar og mætt þörfum erlends markaðar með skilvirkum hætti. Samstarfið felur einnig í sér að Greenfit aðstoði BBG við að setja upp sambærilega þjónustu og Greenfit býður upp á hérlendis sem snýr að heilsu- og lífsstílsmælingum.