BHP, stærsta námufyrirtæki heims, ætlar að greiða hluthöfum sínum rúmlega sextán milljarða dali í arð, eða sem nemur 2.275 milljörðum króna. Þetta kemur fram í árshlutareikningi félagsins sem kom út í gær. Um er að ræða stærstu arðgreiðslu í 137 ára sögu fyrirtækisins.

Félagið hagnaðist um tæplega 24 milljarða dali á fyrri hluta árs, og jókst hagnaðurinn um 39% á milli ára. BHP tilkynnti að það ætli að greiða samtals 3,25 dali í arð á hlut á árinu 2022, um 16,4 milljarða dali.

Hrávöruverð hefur verið afar sveiflukennt á árinu. Innrás rússneskra stjórnvalda í Úkraínu olli framboðsskorti á hrávörum fyrr á árinu sem olli því að hrávöruverð fór upp í hæstu hæðir. Verð á hrávörum hefur þó dregist aftur saman vegna ótta um yfirvofandi kreppu, að því er kemur fram í grein hjá The Times.

Gengi bréfa BHP hefur hækkað um rúm 5% í vikunni, en félagið er skráð í kauphöllina í Sidney. Mike Henry er forstjóri BHP.

Sjá einnig: Rio Tinto greiðir út tvö þúsund milljarða

Námufyrirtækið Rio Tinto greiddi 16,8 milljarða dali, rúmlega 2 þúsund milljarða króna, í arð til hluthafa fyrir rekstrarárið 2021. Stór hluti arðgreiðslnanna fór til Kína, en stærsti hluthafi Rio Tinto er ríkisrekni álframleiðandinn Chinalco sem á 15% hlut í félaginu.