Heildargreiðslur vegna birtingar auglýsinga drógust saman um 3% á síðasta ári eftir þriðjungsaukningu síðustu tvö árin á undan í kjölfar Covid. Þetta kemur fram á heimasíðu Hagstofunnar en samdrátturinn stafar af lægri greiðslum til innlendra miðla.
Auglýsingatekjur innlendra miðla skruppu þá saman um nær 10% á sama tíma og greiðslur til erlendra miðla jukust um 4%.
Í greiningu segir að á síðasta ári hafi heildargreiðslur vegna auglýsingakaupa numið ríflega 26,4 milljörðum króna, þar af féllu 12,6 milljarðar króna í skaut erlendra miðla á móti 13,5 milljörðum til innlendra miðla (e. 49% á móti 51%).
Þá skiptust tekjurnar nær jafnt á milli vefmiðla, sjónvarps og hljóðvarps eða um fimmtungur á hvern þeirra á sama tíma og hlutdeild dag- og vikublaða lækkaði umtalsvert á milli ára.
„Frá 2009 hafa auglýsingaútgjöld vaxið á föstu verðlagi um 13 milljarða króna eða frá 13,4 milljörðum í 26,4 milljarða á síðasta ári. Þetta jafngildir um 97% hækkun. Vöxturinn hefur verið margfalt meiri í greiðslum sem runnið hafa til kaupa á auglýsingum í erlendum miðlum en innlendum,“ segir í greiningu.
Þá hafa greiðslur til erlendra miðla á þessu tímabili aukist um meira en tuttugufalt á sama tíma og greiðslur til innlendra miðla aðeins um 5%.