Störfum í Bandaríkjunum fjölgaði um 151 þúsund í febrúar, samkvæmt bandarísku vinnumálastofnuninni. Það er minna en spár gerðu ráð fyrir, en áætlað var að fjölgunin næmi 160 þúsund störfum.
Atvinnuleysi mældist 4,1 prósent í febrúar, en greinendur höfðu gert ráð fyrir 4 prósent atvinnuleysi.
Fjöldi opinberra starfa dróst saman um 10 þúsund í febrúar, sem gæti verið fyrsta merkið um áhrif DOGE-verkefnis Elon Musk á vinnumarkaðinn vestanhafs, sem miðar að því að fækka opinberum störfum.
Greinendur vestanhafs eru margir hverjir svartsýnir á stöðu efnahagsmála vestanhafs í kjölfar birtingar vinnumarkaðsrannsóknarinnar.
„Þetta lítur ekki vel út fyrir bandaríska hagkerfið,“ segir Veronica Clark, hagfræðingur hjá Citi. Hún gerir ekki ráð fyrir að vinnumarkaðurinn taki við sér á næstu mánuðum.
„Óvissan í kringum tollana mun ein og sér leiða til þess að fyrirtæki munu halda að sér höndum og fresta ráðningum.“
Dario Perkins, hagfræðingur hjá TS Lombard, telur vinnumarkaðsgögnin ekki endilega segja mikið um áhrif aðgerða Trump-stjórnarinnar á vinnumarkaðinn.
„En við erum í raun komin aftur á sama stað og fyrir 12-18 mánuðum – að greina vinnumarkaðsgögn og leita að merkjum um samdrátt í hagkerfinu. Þetta er algjör viðsnúningur miðað við í byrjun árs, þegar nær allir greinendur voru að hækka hagvaxtarspár sínar, ræða endurkomu hagkerfisins og velta fyrir sér hvort Seðlabankinn þyrfti að hækka vexti.“
Ef maður kafar dýpra í tölurnar þá lítur þetta ekki vel út,“ segir Peter Berezin greinandi hjá BCA Research. Hann bendir á að atvinnuþátttakan hafi dregist saman milli mánaða, farið úr 60,1% í 59,9%.
„Þessi vinnumarkaðsrannsókn fær mig til að halda að samdrátturinn sé enn ekki hafinn, en ég tel samt að hann sé á leiðinni.“
Vextir lækki um 75 punkta á árinu
Sumir greinendur telja að vinnumarkaðurinn muni veikjast enn frekar á næstu mánuðum þar sem uppsagnir í opinbera geiranum, niðurskurður í ríkisútgjöldum og óvissa vegna tolla spili allt sitt hlutverk.
Markaðsaðilar gera nú ráð fyrir þremur 25 punkta vaxtalækkunum á árinu 2025. Fyrr á árinu höfðu greinendur gert ráð fyrir samtals 50 punkta lækkun, en vextir standa nú í 4,25-4,5%.
Jay Powell, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, sagði hins vegar á US Monetary Policy Forum í dag að bankinn „þurfi ekki að flýta sér“ að lækka vexti.
Hann talar niður áhyggjur um samdrátt í bandaríska hagkerfinu og segir það sterkt þrátt fyrir aukna óvissu.
Peningastefnunefnd Seðlabanka Bandaríkjanna fundar dagana 18.-19. mars. Næstu fundir eru síðan í maí, júní og júlí.
Bandarískir hlutabréfamarkaðir tóku verulega við sér eftir forsetakosningarnar en hækkanir síðustu fjögurra mánaða hafa nú þurrkast út. S&P 500 hefur lækkað um 0,4 prósent það sem af er degi og um 4% síðastliðna vikuna.