Staðið hefur til að byggja upp nýjan miðbæ í Hamraborg í Kópavogi. Samþykkt var deiliskipulag á síðasta ári um uppbyggingu 730 íbúða á svæðinu næstu árin.

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, segir gríðarleg tækifæri felast í nýjum og áhugaverðum miðbæ.

„Það er hafin vinna við að móta heildarsýn fyrir miðbæinn okkar í tengingu við menningarhúsin á svæðinu. Borgarlínan mun liggja þarna í gegn og gríðarleg tækifæri til að gera loksins áhugaverðan miðbæ sem ég heyri að Kópavogsbúar hafa kallað eftir lengi.“

Kanna möguleika á Reykjanesbraut í stokk

Í Glaðheimum hafði verið skipulagður nýr hverfishluti í deiliskipulagi með 500 íbúðum, bæjargarði auk verslunar- og þjónustuhúsnæðis.

Ásdís segir deiliskipulagið hafa verið sett á ís þar sem bæjaryfirvöld kanna nú möguleikann á því að setja Reykjanesbraut í stokk. Haldin var hugmyndasamkeppni í fyrra, en bæjarstjórn Kópavogs átti frumkvæðið að samkeppninni og var hún unnin í samvinnu við Arkitektafélag Íslands. Tillaga ASK arkitekta var hlutskörpust í samkeppninni.

„Það er afar áhugavert verkefni í gangi hjá okkur á Glaðheimasvæðinu, en fyrir er deiliskipulag í gildi sem við settum á ís meðan verið er að kanna hvort möguleiki sé á því að setja Reykjanesbrautina í stokk. Á síðasta kjörtímabili var farið í hugmyndasamkeppni um slíka tillögu og komu margar góðar hugmyndir fram. Nú erum við í greiningarvinnu þar sem verið er að meta hvaða kostir eru í stöðunni og hvort þetta sé yfirhöfuð raunhæf hugmynd, til dæmis með því að fara í slíka fjárfestingu í samstarfi við lífeyrissjóði og aðra hagaðila.“

Tillaga ASK arkitekta sigraði hugmyndasamkeppni Kópavogsbæjar um þverun Reykjanesbrautar ásamt byggð yfir og/eða við Reykjanesbraut.
© Vinningstillaga ASK arkitekta (Vinningstillaga ASK arkitekta)

Nánar er rætt við Ásdísi í Fasteignablaðinu, sem kom út föstudaginn 19. maí. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.