Fagfjárfestar sem stýra þúsundum milljarða bandaríkjadala, þar á meðal lífeyrissjóðir og vátryggingafélög, hafa á undanförnum vikum hafið markvissa sölu á bandarískum eignum.
Samkvæmt greiningu frá bandarískum fjárfestingarbönkum sem Financial Times greinir frá er þessi þróun ekki tímabundin, heldur hluti af víðtækari viðsnúningi í áherslum alþjóðlegs fjármagnsflæðis.
Ástæður liggja meðal annars í ófyrirsjáanlegri efnahagsstefnu í Bandaríkjunum, gagnrýni forseta á Seðlabanka landsins, óvissu í tengslum við tolla auk hækkandi verðlags á bandarískum hlutabréfum.
Bandaríkjadalur hefur lækkað um meira en 7% gagnvart helstu gjaldmiðlum það sem af er ári og fjármálastofnanir greina frá kerfisbundnu söluferli.
„Þróunin er farin af stað. Hún verður hæg en óumflýjanleg,“ segir Luca Paolini, sérfræðingur hjá Pictet Asset Management.
Hann nefnir að hagstæð verðlagning á evrópskum hlutabréfum og aukin fjárfesting í varnarmálum, leidd af Þýskalandi, geri Evrópu að „rökréttasta valkostinum“ fyrir fjárfesta sem eru að endurmeta áhættudreifingu sína.
Samkvæmt nýrri könnun Bank of America minnkaði vægi bandarískra hlutabréfa í eignasöfnum fjárfesta í mars meira en nokkru sinni fyrr.
Jafnframt var tilfærsla fjármagns frá Bandaríkjunum til Evrópu sú hraðasta frá árinu 1999.
Útflæði úr evrópskum sjóðum sem fjárfesta í bandarískum skuldabréfum og hlutabréfum nam 2,5 milljörðum evra í apríl, það mesta frá byrjun árs 2023, að því er gögn frá Morningstar Direct sýna.
„Við sjáum viðsnúning á langvarandi mynstri þar sem bandarískir markaðir hafa verið kjörlendi fjárfesta um árabil,“ segir Kenneth Lamont, sérfræðingur hjá Morningstar.
Hann bendir á að hluti breytingarinnar sé knúinn áfram af „þjóðrækni“ evrópskra fjárfesta sem séu nú að beina fjármagni í innlend svið á borð við varnarmál og innviðauppbyggingu.
Nokkrir stórir evrópskir og ástralskir lífeyrissjóðir hafa undanfarið dregið úr áhættutöku í Bandaríkjunum.
Veritas-lífeyrissjóður í Finnlandi lækkaði vægi bandarískra hlutabréfa á fyrsta ársfjórðungi.
Fjárfestingastjóri sjóðsins, Laura Wickström, sagði verðlagningu of háa og benti á „óvissu og óljósa orðræðu um tollamál“ sem ástæður.
UniSuper í Ástralíu, með 149 milljarða ástralskra dala undir stjórn, hefur tilkynnt að endurskoðun á vægi bandarískra eigna sé hafin.
„Við höfum sennilega séð hápunkt í fjárfestingum í Bandaríkjunum,“ sagði fjárfestingastjórinn John Pearce í nýlegum hlaðvarpsþætti sjóðsins.
Danskir lífeyrissjóðir seldu bandarísk hlutabréf í fyrsta sinn frá 2022 og keyptu evrópsk bréf í mestum mæli síðan 2018.
Samkvæmt greiningu frá BNP Paribas gæti það þýtt að allt að 300 milljörðum evra verði komið úr dollareignum ef evrópskir sjóðir færa eignahlutföll sín til samræmis við árið 2015.
Evran styrkist og þýsk skuldabréf skjól
Ólíkt hefðbundnu mynstri hefur evran styrkst á sama tíma og eftirspurn eftir þýskum ríkisskuldabréfum hefur aukist sem er merki um að fjárfestar leiti nú skjóls annars staðar en í Bandaríkjunum.
Bæði Bank of America og Deutsche Bank greina frá markvissri sölu dollara í spottmarkaði af hálfu stofnanafjárfesta og sölu dollareigna með tilfærslu í evrur og evrópsk eignasöfn.
„Við sjáum nú raunverulegt fjármagn, þ.e. stofnanafjárfesta, selja dollar í auknum mæli,“ segir Thanos Vamvakidis, yfirmaður gjaldmiðlastefnu hjá Bank of America.
Þróunin hefur vakið spurningar einnig innan Bandaríkjanna. Scott Chan, fjárfestingastjóri CalSTRS, stærsta kennaralífeyrissjóðs Kaliforníu (með $350 milljarða í eignum), sagði á stjórnarfundi í vikunni:
„Ein af ófyrirséðum afleiðingum tollastefnu gæti verið að stærstu viðskiptalönd okkar fari að selja bandarískar eignir. Spurningin er hvort við þurfum meiri fjölbreytni, því eignasafnið okkar er mjög Bandaríkjamiðað.“