Vísitala íbúðaverðs lækkaði um 0,28% í september, samanborið við 1,4% hækkun í ágúst. Árshækkun vísitölunnar mælist nú 9,5%, en hún mældist 10,8% % í ágúst.

„Íbúðaverð heldur áfram að hækka umfram verðlag á landinu öllu, en ekki eins mikið og í júlí og ágúst. Raunverðshækkun nam 3,9 prósent í september, á sama tíma og raunverðshækkun nam 4,5 prósent í ágúst og 4,4 prósent í júlí,“ segir í tilkynningu á vef HMS.

Um er að ræða fyrstu lækkun vísitölunnar frá því í janúar síðastliðnum þegar hún lækkaði um eitt prósent frá fyrri mánuði.

HMS gefur út fjórar undirvísitölur yfir verð á fjölbýli og sérbýli á höfuðborgarsvæðinu annars vegar og landsbyggðinni hins vegar.

Fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,3% milli mánaða og hefur nú hækkað um 7,3% á ársgrundvelli. Í september lækkaði sérbýli á höfuðborgarsvæðinu um 1,7% milli mánaða og hefur nú hækkað um 9,9% á síðustu tólf mánuðum.

Undirvísitala yfir fjölbýli á landsbyggðinni lækkaði um 0,1% milli mánaða og hefur hækkað um 7,8% á síðustu tólf mánuðum. Sérbýli á landsbyggðinni hækkaði um 2,5% á milli mánaða og hefur nú hækkað um 14,6% á ársgrundvelli.

Leiðrétt: Í upphaflegu útgáfunni sagði að íbúðaverð hefði hækkað um 0,3% í september en hið rétta er að vísitalan lækkaði 0,3%.