Nýta má raforku á Íslandi betur en nú er gert. Alls eru tækifæri til bættrar orkunýtni um 1.500 GWst á ári, eða sem nemur um 8% af núverandi raforkunotkun þjóðarinnar. Þetta kemur fram í greiningu sem danska ráðgjafarstofan Implement vann fyrir Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Orkustofnun og Landsvirkjun.
Niðurstöður greiningarinnar verða kynntar á viðburði í Björtuloft í Hörpu sem hefst kl. 13:30. Beint streymi af fundinum má finna neðst í fréttinni.
Í greiningunni kemur fram að af framangreindum 1.500 GWst væri hægt að spara 356 GWst með núverandi tækni og án óheyrilegs kostnaðar. Sparnaði upp á 797 GWst væri hægt að ná fram með meiri fyrirhöfn og kostnaði. Þá telst raforkusparnaður um u.þ.b. 353 GWst telst tæknilega og fjárhagslega erfiður í framkvæmd.
Talið er að hægt sé að ná 24% af þessum orkusparnaði á næstu fimm árum og 53% á næsta áratug.
Auðsóttustu tækifærin í einkageiranum og opinberri þjónustu
Helstu niðurstöður greiningarinnar eru þær að stærstu auðsóttu tækifærin til orkusparnaðar sé að finna í einkageiranum og opinberri þjónustu, eða 320 GWst.
Þá er einnig að finna stór tækifæri í bættri orkunýtni til hitunar þar sem notast er við raforku (178 GWst), endurnýtingu glatvarma frá iðnaði (357 GWst) og bættri nýtni raforku í áliðnaði (112 GWst).
Þá eru einnig tækifæri til bættrar nýtingar innan heimila (58 GWst), í landbúnaði (43 GWst), í framleiðslu járnlausra málma (38 GWst) og hjá fiskimjölsverksmiðjum (24 GWst). Einnig felast tækifæri í því að minnka töp í flutningskerfi raforku (25 GWst).
Landsvirkjun: Aukin orkuþörf staðreynd
Í tilkynningu sem Landsvirkjun sendi frá sér í tilefni af greiningunni segir að aukin orkuþörf samfélagsins á næstu árum sé staðreynd „enda hafa stjórnvöld sett fram metnaðarfull loftslagsmarkmið auk þess sem fyrirsjáanleg fólksfjölgun og eðlilegur vöxtur atvinnulífsins kalla á meira framboð raforku á næstu árum og áratugum“.
Samkvæmt greiningu Landsvirkjunar nemur aukin orkuþörf samfélagsins til ársins 2035 um 6.500 GWst.
„Til að mæta þessari auknu eftirspurn er nauðsynlegt að efla orkuvinnslu í landinu, en einnig er mikilvægt að draga úr orkusóun og nýta þannig endurnýjanlegar orkuauðlindir þjóðarinnar á enn ábyrgari hátt.“
Verulegur skortur á gögnum um orkunýtni á Íslandi
Landsvirkjun segir að umrædd greining miði að því að kortleggja og meta stærð lausna og aðgerða sem eru tæknilega og fjárhagslega framkvæmanlegar, en þó ekki endilega fjárhagslega eftirsóknarverðar miðað við núverandi verðlag og regluverk.
Við greininguna var notast við gögn frá Orkustofnun, gögn um orkunotkun í Evrópu og upplýsingar frá hagaðilum og notendum raforku.
„Í ljós kom að verulega skorti á gögn um orkunýtni á Íslandi, sem takmarkaði dýpt greiningarinnar og þeirra aðgerða sem hægt var að leggja til. Meðal annars eru litlar opinberar upplýsingar um orkunotkun á framleiðslueiningu innan og milli ólíkra atvinnugreina hér á landi. Þessu var meðal annars mætt með því að kalla eftir upplýsingum beint frá ýmsum hagaðilum og eiga samtal við ólíka geira um möguleika þeirra til bættrar orkunýtni.“