Lestarfargjöld á Englandi munu ekki hækka meira en 9% á næsta ári og verða allar hækkanir seinkaðar fram í mars. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bresku ríkisstjórninni.

Hefðin hefur verið að hækka fargjöldin í janúar á hverju ári í samræmi við verðbólgu en á miðvikudaginn greindi breska hagstofan frá því að vísitala smásöluverðs hafi verið 9% í júlí.

Breska ríkið hefur því ákveðið í fyrsta sinn í 25 ár að hækka ekki fargjöldin fyrr en í mars á næsta ári og þá í samræmi við 5,9% meðaltekjuvöxt fram til júlí 2022, frekar en vísitölu smásöluverðs þess mánaðar, sem var 12,3%.

„Við höfum þegar sagt að við munum halda miðaverðinu undir verðbólgu. Augljóslega mun ég vinna náið með Mark Harper, utanríkis- og samgöngumálaráðherra, um hvaða kerfi við ættum að notast við. En það eru erfiðar ákvarðanir núna um hvers konar áætlun hentar bæði farþegum og hagkerfinu í heild,“ segir John Glen, aðalritari fjármálaráðuneytisins.

Stjórnvöld í Skotlandi og Wales hafa ekki enn greint frá því hvernig lestarfargjöldum verður háttað þar á næsta ári og fargjöld á Norður-Írlandi eru ákveðin af rekstraraðilanum Translink.

Adrian Ramsey, meðleiðtogi breska Græningjaflokksins, hefur hvatt stjórnvöld til að frysta lestarfargjöld til að gera lestarferðir ódýrari og þannig hvetja almenning til að nota lestir enn meira.

„Ef Bretland ætlar virkilega að standa við skuldbindingar sínar í loftslagsmálum þá þurfum við fleira fólk sem velur lestir fram yfir bíla og flugvélar. Það að gera lestarferðir dýrari og loka miðasölum undirstrikar aðeins fyrirlitningu stjórnvalda á farþegum og loftslagsaðgerðum,“ segir Adrian.