Eignarhaldsfélagið Hornsteinn, móðurfélag BM Vallár, Sementsverksmiðjunnar og Björgunar, hagnaðist um 829 milljónir króna á síðast ári. Hagnaðurinn dróst saman um 633 milljónir frá fyrra ári. Rekstrartekjur samstæðunnar námu 11,3 milljörðum króna og drógust saman um nærri einn milljarð á milli áranna 2023 og 2024.

Í ársreikningi samstæðunnar kemur fram að rekstur BM Vallár hafi gengið vel framan af ári en nokkur samdráttur hafi svo einkennt síðari hluta þess vegna minni umsvifa á byggingarmarkaði. Gripið hafi verið til hagræðingaraðgerða sem höfðu að fullu komið til framkvæmda í árslok. Rekstrarafkoma hafi verið heldur lakari en áætlanir gerðu ráð fyrir vegna þessa. Horfur á íbúðamarkaði séu jákvæðar í upphafi yfirstandandi árs og fyrir vikið rekstrarhorfur ársins ágætar.

Rekstur Sementsverksmiðjunnar hafi gengið vel á árinu 2024. Nokkur aukning hafi orðið í sölu sements og rekstrarafkoma betri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Horfur fyrir næsta ár séu almennt góðar en þó gert ráð fyrir hóflegum samdrætti á árinu. Rekstur Björgunar hafi svo einkennst af nokkrum rekstrartruflunum á skipum félagsins og háum viðhaldskostnaði vegna þeirra. Að öðru leyti hafi reksturinn gengið vel og horfurnar fyrir næsta ár jákvæðar.

Umsvif á byggingamarkaði virðist fara vaxandi og jákvæð teikn séu á lofti varðandi eftirspurn á helstu afurðum félaganna. Á hinn bóginn sé óvissa vaxandi í alþjóðaumhverfinu vegna alþjóðaviðskiptadeilna. Áætlanir geri ráð fyrir svipaðri rekstrarafkomu á þessu ári.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.