Hagnaður fisksölufélagsins ASI ehf. dróst saman um 65,6% á milli áranna 2022 og 2023 og nam tæplega 1,5 milljónum dala eða um 205 milljónum króna. Félagið hyggst ekki greiða út arð í ár.
Velta félagsins dróst saman um 17% milli ára og nam 80 milljónum dala, eða um 11 milljörðum króna, í fyrra samanborið við 96,6 milljónir dala árið 2022.
„Innrás Rússlands í Úkraínu hefur skapað áskoranir fyrir félagið á þessu ári þar sem margir birgjar félagsins eru rússnesk sjávarútvegsfyrirtæki,“ segir í skýrslu stjórnar í ársreikningi félagsins.
„Refsiaðgerðir gegn Rússlandi hafa skapað ókyrrð í viðskiptum okkar en fram til þessa hefur félagið farið vel í gegnum ástandið og eru stjórnendur þeirrar skoðunar, á grundvelli upplýsinga sem vitað er um í dag, að innrás Rússa í Úkraínu feli ekki í sér verulega ógn við áframhaldandi rekstrarhæfi félagsins.“
Eignir ASI námu 15 milljónum dala eða um 2,1 milljarði króna í árslok 2023. Eigið fé var 12,8 milljónir dala eða um 1,7 milljarðar króna og eiginfjárhlutfall samstæðunnar var 84,7%.
Samstæðan er í eigu Neptune Holding B.V. Hjónin Ólafur Ólafsson og Ingibjörg Kristjánsdóttir eiga 66,7% óbeinan hlut í ASI ehf. samkvæmt fyrirtækjaskrá Skattsins.