Breski olíurisinn BP skilaði 8,5 milljarða dala hagnaði af undirliggjandi starfsemi á öðrum ársfjórðungi sem er um þrefalt hærra en á sama tímabili í fyrra. Greiningaraðilar höfðu spáð því að afkoman yrði nær 6,8 milljörðum dala. Financial Times greinir frá.

Olíu og gasfyrirtækið hefur ekki skilað meiri hagnaði á einum ársfjórðungi frá árinu 2008.

Sjá einnig: Hagnaður Equinor þrefaldast

Góða afkomu má rekja til hækkandi olíu- og gasverðs eftir innrás Rússa í Úkraínu. Hagnaður orkufyrirtæki víða um heim hefur aukist verulega í ár. Norska ríkisolíufyrirtækið Equinor skilaði 17,7 milljarða dala hagnaði á öðrum ársfjórðungi. Bandarísku fyrirtækin ExxonMobil og Chevron skiluðu bæði methagnaði á öðrum fjórðungi. Þá skilaði Shell methagnaði annan ársfjórðunginn í röð.