Hagnaður Húsasmiðjunnar eftir skatta á síðasta ári nam 343 milljónum króna og dróst saman um 576 milljónir króna milli ára. Velta byggingavöruverslunarinnar á síðasta ári var 25,8 milljarðar og dróst saman um 2,9% samanborið við fyrra ár

„Hátt vaxtastig og áframhaldandi lóðaskortur á síðasta ári dró töluvert úr nýframkvæmdum, en með lægri verðbólgu og lægra vaxtastigi má búast við að nýframkvæmdir aukist að nýju,“ segir í fréttatilkynningu Húsasmiðjunnar þar sem greint er frá rekstrarniðurstöðu síðasta árs.

Eignir félagsins námu 9,0 milljörðum króna í árslok 2024 og var eiginfjárhlutfallið 60,3%.

Húsasmiðjan segir að reksturinn hafi gengið vel síðasta áratuginn og hafi fyrirtækið á þeim tíma ráðist í umtalsverðar fjárfestingar, meðal annars í nýjum verslunum, nýrri tækni og innviðum.

Árni Stefánsson lét af störfum sem forstjóri Húsasmiðjunnar í byrjun maí síðastliðnum. Leit að nýjum forstjóra stendur nú yfir og sér Hagvangur um ráðningarferlið. Magnús Guðmann Jónsson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs, hefur tekið tímabundið við starfi forstjóra.