Evrópusambandið hefur samþykkt að leggja háa tolla á alla innflutta kínverska rafbíla til ESB en tillagan hefur notið stuðnings meirihluta aðildarríkja. Tollarnir eru til fimm ára og nema allt að 45%.
Tilgangurinn með tollunum er að vernda evrópskan bílaiðnað gegn því sem evrópskir stjórnmálamenn telja vera ósanngjarna ríkisstyrki frá kínverskum stjórnvöldum.
Ákvörðunin hefur þó verið umdeild, sérstaklega meðal Frakka og Þjóðverja, og óttast sumir að hún gæti leitt til viðskiptastríðs milli ESB og Kína. Þá hafa Kínverjar reitt sig á hátæknivörur til að endurræsa hagkerfið sitt og er ESB stærsti erlendi markaður fyrir kínverska rafbíla.
Kínverski rafbílamarkaðurinn hefur vaxið hratt undanfarna tvo áratugi og hafa vörumerki eins og BYD fært sig inn á alþjóðlega markaði. Þróunin hefur þá vakið ótta meðal Evrópuríkja um að þeirra eigin fyrirtæki geti ekki keppt við ódýru kínversku verðmiðana.
Nokkur aðildarríki sátu hjá en Þjóðverjar, sem eru mjög háðir útflutningi til Kína, voru á móti tollunum. Frakkar, Grikkir, Ítalir og Pólverjar voru hins vegar hlynntir tollunum.