Alvogen hefur sent frá sér yfirlýsingu um að lyfjafyrirtækið og Halldór Kristmannsson hafi náð sáttum vegna deilna þeirra í kjölfar ásakana Halldórs um starfshætti Róberts Wessman í fyrra, en þeir höfðu verið nánir samstarfsmenn í rúm átján ár. Alvogen mun falla frá málssókn gegn Halldóri.

Halldór segir í skriflegu svari við fyrirspurn Viðskiptablaðsins að hann fagni því að ágreiningur hans, Róberts, og Alvogen í Bandaríkjunum sé að baki.

„Við Róbert vorum nánir samstarfsmenn í 18 ár og ég óska honum og fyrirtækjunum velfarnaðar. Ég hef verið hluthafi lyfjafyrirtækjanna frá árinu 2012 þegar ég lagði fjármuni til rekstur Aztiq samstæðunnar og hlakka til að fylgjast með framgangi þeirra á næstu árum.“

Halldór staðfestir að samkomulagið hafi falið í sér fjárhagsuppgjör. Það hafi verið með þeim hætti að launagreiðslur, áunnir kaupaukar og útlagður lögmannskostnaður, samkvæmt reikningum, sé greitt af félaginu.

„Ekki er um frekari greiðslur til mín að ræða, enda óskaði ég ekki eftir því. Þó að þetta sé ekki hluti af yfirlýsingu aðila, vona ég að mér sé óhætt að upplýsa um þetta. Að öðru leiti er samkomulagið varið trúnaði og ég mun ekki tjá mig frekar um það í fjölmiðlum,“ segir Halldór.

Lokar vefsíðunni og hefur ekki lengur stöðu uppljóstrara

Halldór hefur samþykkt að loka heimasíðu sinni, alvowhistleblower.com, þar sem hann sagði frá deilum sínum við stjórnendur Alvogen, þar á meðal „víkingastjóranum“ Róberti Wessman.

Í tilkynningu Alvogen segir að Halldór hafi einnig lýst því yfir að hann hafi ekki stöðu uppljóstrara í neinni lögsögu. „Jafnframt hefur hann lýst því yfir að hann uni þeirri niðurstöðu stjórnar að lýsa yfir trausti til Róberts í kjölfar rannsóknarinnar.“

Halldór kom fyrst fram í fjölmiðlum vegna þessa máls í mars 2021 og sakaði Róbert um „morðhótanir, líkamsárásir og svívirðilegar ásakanir“ á hendur meintra óvildarmanna. Í yfirlýsingu Róberts sama dag sagði hann að tilgangur ásakana Halldórs hafi verið fjárhagslegur. Deilur Halldórs og aðila í kringum Róbert héldu áfram næstu mánuði.

Yfirlýsing Alvogen í heild sinni:

„Í janúar 2021 sendi Halldór Kristmannsson bréf til stjórnar Alvogen, sem innihélt fjölda ásakana um starfshætti Róberts Wessman. Að lokinni óháðri rannsókn sérfræðinga, stefndi Alvogen Halldóri fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og átti málflutningur að fara fram á haustmánuðum.

Aðilar hafa náð sáttum í málinu og mun Alvogen falla frá málsókninni. Halldór mun loka heimasíðu sinni og hefur lýst því yfir að hann hafi ekki stöðu uppljóstrara í neinni lögsögu. Jafnframt hefur hann lýst því yfir að hann uni þeirri niðurstöðu stjórnar að lýsa yfir trausti til Róberts í kjölfar rannsóknarinnar.“