Gunni Hilmarsson er stofnandi og einn af eigendum Thomsen Reykjavík sem opnaði við Tryggvagötu 21 í lok nóvember. Hann sagði upp störfum hjá Kormáki og Skyldi í vor og hefur síðan þá viljað opna sína eigin verslun.
Hann hefur mikla reynslu í faginu og var því fljótur að koma boltanum af stað en Gunni hefur unnið í fatabransanum í rúmlega 30 ár.
„Ég byrjaði að vinna 16 ára hjá Hans í Kringlunni þegar ég var í menntaskóla og gerðist síðan innkaupastjóri og rak svo verslunina líka. Eftir það stofnuðum við konan verslunina GK Reykjavík árið 1997.“
Gunni segist sjálfur vera mikill miðbæjarmaður og finnst gaman að geta tekið þátt í uppbyggingu svæðisins. Nafn verslunarinnar á sér einnig sögulegar rætur að rekja til miðborgar Reykjavíkur.