Gengi Icelandair féll um 6,31% í Kauphöllinni í dag og var dagslokagengið 1,56 krónur. Heildarviðskipti með bréf Icelandair fór yfir 1,8 milljarð í dag. Gengi flugfélagsins hefur nú lækkað um 20,41 síðastliðinn mánuð.
Markaðsvirði Icelandair í lok dags nam 64,1 milljarði króna sem er lækkun úr 68,5 milljörðum á milli daga.
Icelandair færði afkomuspá sína fyrir árið niður í gærkvöldi og gerir félagið nú ráð fyrir að rekstrarhagnaður (EBIT) verði á bilinu 50-65 milljónir dala sem samsvarar 3,3-4,3% af tekjum. Fyrri spá flugfélagsins gerði ráð fyrir að EBIT-hagnaður yrði á bilinu 4-6% í ár.
Í afkomuspánni segir að fraktstarfsemi félagsins hafi reynst mjög krefjandi og sá afkomubati sem gert var ráð fyrir við birtingu annars ársfjórðungs hafi ekki skilað sér.
Tilkynnti félagið í morgun að Gunnar Már Sigurfinnsson framkvæmdastjóri Icelandair Cargo væri að segja upp störfum og stíga til hliðar úr framkvæmdastjórn félagsins.
Lágflug Play heldur áfram
Á sama tíma lækkaði Play á First north markaðnum um 3,8% í 18 milljón króna viðskiptum og nam dagslokagengi flugfélagsins 8,85 krónur.
Gengi Play hefur ekki verið lægra frá því að félagið var skráð á markað. Play greindi frá því í síðustu viku að flugfélagið gerir ekki lengur ráð fyrir að skila rekstrarhagnaði (EBIT) yfir allt árið 2023 eins og félagið hafði áður spáð. Hækkun á eldsneytisverði spilar þar stærstan þátt.
Fjárfestingafélagið SKEL féll einnig um 4,8% á markaði í dag í 40 milljón króna veltu. VÍS lækkaði um 3,86% í 385 milljón króna veltu á meðan gengi Marels lækkaði um 1,79% í 571 milljón króna veltu.
Eik á uppleið fyrir hluthafafund
Fasteignafélagið Eik var eina fyrirtækið á markaði sem hækkaði að einhverju marki í dag en gengi félagsins fór upp um 4,35% í 38 milljón króna veltu.
Hluthafafundur Eikar fer fram á föstudaginn en þar munu hluthafar kjósa um valfrjálst yfirtökutilboð Regins í allt hlutafé félagsins. Stjórn Eikar lagðist gegn tilboðinu í gærkvöldi en Reginn hækkaði tilboðsverð sitt í morgun.
Önnur félög sem hækkuðu lítillega var Arion Banki sem fór upp um 0,72% í 316 milljón króna viðskiptum en Moodys hækkaði lánhæfismat bankans í dag. Íslandsbanki sem fór upp um 0,72% og Reginn fasteignafélag hækkaði um 0,42% í 63 milljón króna veltu.
Heildarvelta á markaði var 4,8 milljarðar króna og lækkaði úrvalsvísitalan OMXI10 um 0,85%.