Hluthafafundur hefur verið boðaður í HB Granda 15. ágúst næstkomandi klukkan 17:00 að Norðurgarði 1, 101 Reykjavík, og sagt er sérstaklega frá því í tilkynningu að fundurinn fari fram á íslensku. Á dagskrá fundarins eru tvö mál sem komið hafa fram í fréttum síðustu daga, auk liðarins önnur mál.

Annars vegar er það tillaga um að staðfesta ákvörðun stjórnar um kaup félagsins á öllu hlutafé í sölufélögum í Japan, Hong Kong og meginlandi Kína,  sem og þjónustufélagi á Íslandi, af Útgerðarfélagi Reykjavíkur, sem er stærsti eigandi HB Granda.

Verða kaupin gerð með útgáfu nýs hlutafés en nú þegar er Útgerðarfélag Reykjavíkur, sem hét áður Brim, eigandi 35,01% hlutar í HB Granda, en Guðmundur Kristjánsson forstjóri HB Granda er eigandi þess.

Hin tillagan er sú að HB Grandi taki upp nafnið Brim , sem félag Guðmundar bar áður. Guðmundur sagði í lok mars að aukning hagnaðar HB Granda um fimmtung í ríflega hálfan milljarð króna á fyrsta ársfjórðungi væri ekki viðunandi hagnaður .