Rekstur sjónvarpsstöðva afþreyingarrisans Disney, sem var helsta tekjulind félagsins, er nú orðin byrði á rekstur þess á aðeins nokkrum ársfjórðungum.

Tekjur af rekstri sjónvarpsstöðvanna hafa dregist enn hraðar saman en greiningaraðilar höfðu reiknað með en auk þess hefur félaginu gengið illa með að gera rekstur streymisveitna á þess vegum arðbærar.

Tekjur Disney af línulegri dagskrá drógust saman um 35% á öðrum fjórðungi yfirstandandi rekstrarárs, niður í 1,8 milljarða dala. Þar með hafa tekjur af skemmtigörðum, upplifunum og vörum tengdum vörumerkinu verið hærri en af línulegri dagskrá tvo fjórðunga í röð.