Hagnaður Landsvirkjunar nam 7,6 milljörðum króna í fyrra. Hörður Arnarson forstjóri segir stöðu fyrirtækisins sterka. Þannig standi sjóðstreymi undir nýfjárfestingum og viðhaldi en fyrirtækið er í dag að byggja tvær virkjanir og er það í fyrsta skiptið sem tvær slíkar framkvæmdir eru í gangi á sama tíma hjá Landsvirkjun. Verið er að stækka Búrfellsvirkjun um 100 MW og þá er verið að byggja 90 MW jarðvarmavirkjun við Þeistareyki. Stofnkostnaður þessara framkvæmda er um 50 milljarðar króna.
Önnur vísbending um sterka stöðu Landsvirkjunar er að lánshæfismat fyrirtækisins án ríkisábyrgðar hefur verið hækka og er nú í BBB-flokki. Til samanburðar eru flestir helstu samkeppnisaðilarnir aðeins einum flokki ofar eða í BBB+ en það eru fyrirtæki eins og Dong Energy, Vattenfall og Fortum. Statkraft er tveimur flokkum fyrir ofan Landsvirkjun eða í flokknum A-.
Hörður sagði að þar sem staða fyrirtækisins hefði verið að styrkjast undanfarin ár væri arðgreiðslugeta þess að breytast. Undanfarin ár hefur fyrirtækið verið að greiða um 1,5 milljarða króna í arð til ríkisins en Hörður sagðist reikna með því að greiðslan myndi hækka strax á næsta ári og að eftir 3 til 4 ár myndi fyrirtækið greiða á bilinu 10 til 20 milljarða króna í arð á ári.
Samið við Elkem í ár
Afkoma Landsvirkjunar hefur um árabil verið nátengd afkomu álvera landsins enda kaupa þau mikla raforku af fyrirtækinu og hefur verðið að hluta verið tengt heimsmarkaðsverði á áli. Hörður sagði að undanfarin ár hefði Landsvirkjun markvisst verið að draga úr álverðstengingum. Árið 2009 hafi um 66% rekstrartekna fyrirtækisins verið tengdar álverði en í dag er þetta hlutfall komið niður í 25%. Hlutfallið mun síðan lækka niður í um 20% þegar nýr samningur við Norðurál tekur gildi árið 2019.
Hörður sagði að hlutfallið hafi verið alltof hátt í gegnum tíðina en sé nú að nálgast það að verða ásættanlegt. „Ég þekki ekkert fyrirtæki, sem eru í samkeppni við okkur, sem er með þetta hlutfall hærra en 5%."
Landsvirkjun hefur á síðustu árum endursamið við Norðurál og Rio Tinto Alcan í Straumsvík. Gert er ráð fyrir að nýr samningur við Elkem á Grundartanga verði kláraður á þessu ári. Töluvert langt er í að samið verði við Alcoa Fjarðaál á Reyðarfirði að nýju því núverandi samningur gildir til ársins 2027.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .